Samtök Grænkera á Íslandi veitti EFLU hvatningarverðlaun fyrir frábært starf á sviði umhverfismála. Viðurkenningin er tilkomin vegna Matarspors, þjónustuvefs EFLU, sem reiknar kolefnisspor matvæla.
Hvatningarverðlaun í þágu umhverfismála
Árlega veita Samtök Grænkera hvatningarverðlaun til fyrirtækja sem þykja vera framúrskarandi og fræðandi í þeirri vitundarvakningu sem tengist vegan lífsstílnum og/eða framboði á valkostum fyrir grænkera á Íslandi. Þjónustuvefur EFLU, Matarspor, veitir mötuneytum og matsölustöðum tækifæri til að reikna út og bera saman kolefnisspor mismunandi máltíða og rétta. Þannig er hægt að þróa loftslagsvænni máltíðir og draga úr kolefnislosun. Niðurstöður útreikninga eru settar fram á einfaldan og aðgengilegan hátt og kolefnisspor sett í samanburð við hve langt þyrfti að aka fólksbíl til að losa sama magn gróðurhúsalofttegunda.
EFLA þakkar Samtökum Grænkera fyrir viðurkenninguna fyrir Matarspor sem er ætlað að auka umhverfisvitund og veita upplýsingar sem geta auðveldað ákvarðanatöku um eigin neyslu.