Innblástur til að halda náminu áfram

07.10.2022

Fréttir
A ground crew member communicating via radio with aircraft and airport facilities in the background

Trausti Lúkas Adamsson.

„Starfsfólk EFLU tók vel á móti mér frá fyrsta degi og er það greinilegt að allir eru viljugir til þess að hjálpa hvor öðrum,“ segir Trausti Lúkas Adamsson sem starfaði sem sumarstarfsmaður hjá EFLU á Norðurlandi í sumar. „Þetta var fyrsta sumarið mitt hjá EFLU.“

Innblástur til að halda náminu áfram

Trausti Lúkas er tvítugur Akureyringur sem var ráðinn inn sem mælingamaður. „Ég hef því aðallega unnið við útsetningar á borð við lóðarmörk og byggingareiti, innmælingar á yfirborðsflötum og sigmælingar. Ég fór til dæmis að Dettifossi að setja út fyrir undirstöðum á nýjum útsýnispalli,“ útskýrir Trausti.

Verkefnin sem Trausti hefur unnið í sumar hafa verið mörg og fjölbreytt. „Mér hefur gengið mjög vel að takast á við þau verkefni sem mér hefur verið úthlutað og er það hjálplegum samskiptum milli samstarfsfólks að þakka,“ segir Trausti, en alls starfa tæplega 30 manns á skrifstofu EFLU á Akureyri.

Trausti stefnir á nám í Háskóla Íslands með það að markmiði að verða vélaverkfræðingur. Með það markmið í huga er reynslan frá vinnu sumarsins mikilvæg. „Þessi reynsla er gulls ígildi fyrir nema þar sem hún gefur sýn inn í líf verkfræðinga og veitir mér því mikinn innblástur til að halda náminu áfram,“ segir Trausti.

Verandi einn af yngstu starfsmönnum EFLU er eðlilegt að framtíðin hans sé að mestu óráðin ef frá eru taldar áætlanir um verkfræðinám. „Ég stefni aðallega á að búa hérna á Íslandi eftir nám en annars hef ég fátt planað,“ segir Trausti Lúkas að lokum.