Innlendir orkugjafar fyrir íslenska skipaflotann

08.11.2019

Fréttir
An aerial view of boats docked alongside a pier in a harbor

Skip við Hafnarfjarðarhöfn.

Orkuskipti skipaflotans er eitt af stóru málunum í þeirri viðleitni að auka hlut innlendra endurnýjanlega orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis. EFLA tekur þátt í málstofu á Sjávarútvegsráðstefnunni þar sem fjallað verður um orkuskipti skipaflotans með því að nota innlent eldsneyti.

Innlendir orkugjafar fyrir íslenska skipaflotann

Sjávarútvegsráðstefnan er haldin í tíunda sinn í Hörpu 7.-8. nóvember og taka fulltrúar EFLU þátt í ráðstefnunni. Hafsteinn Helgason, frá markaðsþróun EFLU, tekur þátt í málstofu varðandi orkunotkun og orkugjafa í sjávarútvegi og fjallar þar um hvernig horfa megi til orkuskipta í skipaflota Íslands með því að nota innlent eldsneyti og minnka þar með innflutning á jarðefnaeldsneyti.

A man speaking at a podium with a panel of three women seated at a table behind him

Hafsteinn Helgason flutti erindi um orkuskipti skipaflotans.

Jákvæðar framfarir síðustu þrjá áratugi

„Íslenskur sjávarútvegur hefur gert margt gott með því að draga úr eldsneytisnotkun á síðastliðnum þremur áratugum með aðgerðum eins og fækkun skipa, innleiðingu á fullkomnari veiðarfærum ásamt betri nýtingu í alls konar vélum. Það má samt aldrei líta á árangur sem endastöð, því ávallt er hægt að gera betur, en um 1 kg af olíu er notað að meðaltali til að veiða um 4-6 kg af fiski. Ef við ætlum að fara í alvöru breytingar þarf skýra stefnu og mikla undirbúningsvinnu, en einnig þarf mikið hugrekki og samvinnu til að framkvæma þessar breytingar í orkuskiptunum.“ segir Hafsteinn.

Nauðsynlegt að skipta yfir í vistvænt eldsneyti

Kaupskipafloti heimsins losar um 2,2% af koltvíoxíði heimsins og gera spár ráð fyrir að þeim muni fjölga um helming fyrir 2050. Á sama tímabili stefnir IMO (International Maritime Organization) að því að minnka útblástur skipaflotans að jafnaði um 85%. „Til að ná þessum markmiðum, ásamt loftslagsmarkmiðum heimsins er ekki nóg að leita til betri nýtingu véla og skipulags í ferðum. Eina lausnin er að horfa til vistvænni eldsneytistegunda. Nýta má rafhlöður og vetni til að knýja smærri báta og spennandi þróun er í gangi í ferjum og alls konar minni vinnubátum í þeim efnum. Í stærri vélum þarf að leita í þyngri vetnisbera.“ bætir Hafsteinn við.

Horft til alkóhóls, vetnis eða ammóníaks

Nýlegar rannsóknir A.P Moller - Maersk og Lloyd Register staðfesta að horfa þarf til annarra orkugjafa og horfa þessir aðilar aðallega til þriggja gerða af eldsneyti sem eru best staðsett til að kolefnishlutleysa þyngri skipaflota heimsins. Þessir orkugjafar sem horft er til eru:

  • Alkóhól, eins og t.d. etanól og metanól úr lífmassa eða endurvinnanlegu vetni
  • Lífmetan sem getur verið notað á skip keyrð á vökvagerðu jarðgasi, LNG
  • Ammóníak sem er raunverulega laust við allt kolefni og orkunýting er jákvæð

Myndirnar að ofanverðu eru frá GloTraM (Global Transport Model) og gerðar af UMAS (University Maritime Advisory Services) sýna hvernig eldsneytisnotkun skipageirans gæti litið út ef fylgt væri annars vegar markmiðum um að takmarka hækkun hitastigs á jörðinni við 1.5°C, sem myndi útiloka kolefnisútblástur 2050 og hins vegar miðað við markmið IMO, sem er afkolefnisvæðing skipageirans 2070. Myndirnar miða við þær leiðir sem skipageirinn gæti farið með sem minnstum kostnaði. Hér er horft mikið til ammóníaks en vetnisberinn ammóníak mun samkvæmt þessum spám vera um 75-99% hluti af eldsneytisnotkuninni árið 2050. Hin myndin, að neðanverðu, er spá DNV GL um hvernig IMO getur náð 2050 markmiðum sínum, hér með ammóníak um 25% af blöndunni og LNG hefur mun meira hlutverk í ferlinu.

Two side by side graphs depicting scenarios for the decarbonization

Tvær sviðsmyndir sem sýna spá fyrir notkun á ólíkum orkugjöfum skipaflotans. Mynd: GloTram gerð af UMAS.

Metanólflutningaskip starfrækt í dag

Aðspurður um tækifæri ammóníaks og metanóls sem orkugjafa segir Hafsteinn „Ef horft er til ammóníaks og metanóls, þá er hvort tveggja vetnisberar sem nú þegar er verið að framleiða í miklu magni og mikið af innviðum eru til staðar fyrir notkun þeirra. Það þyrfti þó að auka til muna framleiðslu á endurnýjanlegum afbrigðum þeirra, þar sem mest af vetninu sem til þarf er framleitt úr jarðgasi í dag.“

Einnig nefnir hann að um þessar mundir er mikil þróun í skipavélum sem ganga á þessum eldsneytistegundum. „Um 13 skip sem ganga á metanóli eru í pöntun eða rekstri í dag, þar af mest metanólflutningaskip á vegum Methanex. Ferja Stena Line sem gengur á milli Kiel og Gautaborgar notar metanól framleitt af íslenska fyrirtækinu Carbon Recycling International. Þá hefur Yara sem er áburðarframleiðandi áætlanir um að flutningaskip þeirra muni ganga fyrir ammóníaki, en vélaframleiðendur eins og MAN Energy Solutions og J-ENG eru með vélar til prufu. Það þarf þó að horfa til fleiri breytinga í skipahönnun. Til dæmis má nefna að ef vélar eru jafnnýtnar og fyrir skipaolíu, þyrfti tankarými þeirra að rúma 2,2-2,8 meira af þessum vetnisberum.“ segir Hafsteinn.

A graph illustrating project energy use and fuel mix

Spá um notkun mismunandi eldsneytistegunda í skipageira heimsins miðað við markmið IMO. Mynd gerð af DNV GL fyrir Maritime Forecast to 2050.

Gríðarleg tækifæri hérlendis í orkuskiptum

Að mati Hafsteins er Ísland hinn fullkomni markaður til að hefja vegferðina að allsherjar orkuskiptum í skipasamgöngum og sjávarútvegi. Nægilegt magn er til af endurnýjanlegri raforku til að framleiða eldsneytistegundirnar innanlands og mikil skipaumferð er á lokuðu tiltölulega markaðssvæði. „Skipin leita í heimahafnir þar sem þau vita að þau geta náð í eldsneyti. Það er pólitískur og samfélagslegur vilji að gera betur í loftslagsmálum og að Ísland verði leiðandi í orkuskiptum og með aðgerðum eins og „Áætlun í loftslagsmálum“ og „Orkuskipti í höfnum“ hefur stjórn landsins staðfest þann vilja. Til að framleiða vetnisbera sem dygðu til minnka olíunotkun fiskiskipaflotans um 100.000 tonn, þyrfti tæplega 600 MW framleiðslu á rafmagni. Langstærstur hluti þeirrar orku færi til rafgreiningar á vatni til framleiðslu vetnis. Vetnisframleiðsla víða um land myndi einnig flýta fyrir orkuskiptum í smábátum, lyfturum og flutningabílum. Allt það súrefni sem verður til við rafgreininguna myndi nýtast í fiskeldi á landi, sem á mikla framtíð fyrir sér“ segir Hafsteinn að lokum.

Glærur frá erindi Hafsteins