Íshjúpun heyrúlla og nútíma samgöngumáti

21.08.2020

Fréttir
Four individuals casually standing outdoors next to large potted plants and decorative metal work

Nýsköpun hefur ávallt verið í hávegum höfð hjá EFLU og starfsfólk hefur unnið að mörgum áhugaverðum nýsköpunar- og rannsóknarverkefnum. Í sumar hafa þrjú metnaðarfull rannsóknarverkefni verið unnin af háskólanemum og meðal viðfangsefna er íshjúpun heyrúlla, sjálfakandi almenningsvagnar og áhrif deiliþjónustu á ferðavenjur.

Það er Nýsköpunarsjóður námsmanna sem veitir háskólanemum styrk til sumarvinnu við að vinna rannsóknarverkefnin en námsmennirnir starfa undir styrkri leiðsögn sérfræðinga EFLU.

Íshjúpun heyrúlla

Á sumrin stunda íslenskir bændur heyskap og er flest hey unnið í rúllur sem eru síðan plastaðar. Á hverju ári er flutt inn um 1750 tonn af heyrúlluplasti og fer langstærstur hluti þess í votheysvinnslu. Plastið sem notað er í rúllurnar er polyetelínplast með íblöndunarefnum sem eykur teygjanleika og vörn gegn útfjólubláum geislum sólarljóss. Að auki er viðloðunarefni í filmunni sem kemur í veg fyrir að loft komist á milli laga plastsins. Vegna þessara aukaefna í plastinu hefur reynst erfitt að endurvinna landbúnaðarplast á heimsvísu og því er áhugavert að skoða alla möguleika til að takmarka þessa miklu plastnotkun landbúnaðargeirans. Í því samhengi er vert að athuga hvort hægt sé að snöggfrysta heyrúllur með köfnunarefni og hjúpa þær með ís. Aðferðin gerir ráð fyrir því að bóndinn framleiði köfnunarefnið úr andrúmsloftinu.

Rannsóknarverkefnið felst í að greina ferli og álag á heyrúllur og frumhanna tillögur að búnaði til frystingar og geymslu þeirra fyrir hefðbundið kúabú ásamt því að reikna rekstrarkostnað og arðsemi slíks búnaðar.

Er Ísland tilbúið að taka á móti sjálfakandi almenningsvögnum?

Til framtíðar er hugsanlegt að sjálfakandi almenningsvagnar verði einn af mörgum þáttum samgöngukerfis höfuðborgarsvæðisins. Í grunninn snýst rannsóknarverkefnið um að greina og svara þeirri spurningu hvort Ísland sé tilbúið að taka á móti sjálfakandi almenningsvögnum. Í því samhengi er litið til þriggja grunnundirstaða, tækni og innviða, lagaumhverfis og viðhorfs almennings. Litið verður til sambærilegra tilraunaverkefna á Norðurlöndunum auk þess sem staða þekkingar á viðfangsefninu verður rannsökuð.

Markmið verkefnisins er einnig að skilgreina og undirbúa tilraunaverkefni þar sem sjálfakandi almenningsvagnar munu aka 1-2 km leið í Reykjavík þar sem farþegar geta farið inn og út á nokkrum biðstöðvum. Haft verður að leiðarljósi að tilraunaverkefnið svari spurningum eða leysi vandamál borgarinnar um að auka lífsgæði borgarbúa. Samstarfaðilar verkefnisins eru Reykjavíkurborg og Strætó auk Holo, dansks fyrirtækis, sem sérhæfir sig í rekstri sjálfakandi almenningsvagna og hefur staðið að fimm tilraunaverkefnum slíkra farartækja á Norðurlöndunum og í Eistlandi.

Áhrif örflæðis á ferðavenjur

Á komandi árum má búast við byltingu í ferðavenjum og má sjá ummerki þess nú þegar víðs vegar um heim. Í þeirri þróun hefur hugtakið örflæði (e. micromobility) verið áberandi. Hugtakið nær yfir létt farartæki sem henta vel til styttri ferða, hvort sem er í einkaeigu eða sem hluti af deiliþjónustu, og geta verið með eða án rafmagnmótors. Örflæðisfaratækjum hefur fjölgað mikið á stuttum tíma á höfuðborgarsvæðinu og setja þau nú orðið sterkan svip á borgarumhverfið. Samhliða þeirri þróun hafa komið á sjónarsviðið deiliþjónusturnar Donkey Republic (deilihjól) og Hopp (deilirafskútur). Þessi fyrirtæki, ásamt Reykjavíkurborg, eru samstarfsaðilar verkefnisins.

Tilgangur rannsóknarverkefnisins er að meta áhrif deiliþjónustu örflæðis á ferðavenjur íbúa á höfuðborgarsvæðinu og kanna viðhorf almennings til örflæðis. Með gögnum frá Donkey Republic og Hopp verður unnin greining á notkun og ferðamynstri þjónustunnar. Að auki verður lögð fram ferðavenju- og viðhorfskönnun sem ætlað er að varpa ljósi á notkun, viðhorf og upplifun fólks af örflæði.