Konur í orkumálum í heimsókn

29.11.2017

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Félag kvenna í orkumálum kom í heimsókn til EFLU þriðjudaginn 28. nóvember. Starfsfólk EFLU af orkusviði og umhverfissviði sagði frá áhugaverðum verkefnum sem fyrirtækið er að fást við.

Konur í orkumálum í heimsókn

Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU, bauð hópinn velkomin og hélt stutta tölu. Í kjölfarið sagði Kolbrún Reinholdsdóttir, fagstjóri orkumálaráðgjafar, frá starfsemi EFLU og hélt fyrirlestur um orkumál og rafkerfi.

Orkumál og raforkukerfi

Í fyrirlestri Kolbrúnar kom fram hver væru helstu viðfangsefni orkusviðs, bæði innanlands og erlendis. Einnig fjallaði hún um raforkuspá, kerfisgreiningar og aðra ráðgjöf á sviði orkumála sem EFLA veitir.

Þróun orkuverðs

Ágústa Loftsdóttir, frá orkumálaráðgjöf EFLU, fjallaði um þróun orkuverðs á Íslandi og sýndi hvernig grunnverð bensíns, þ.e. innkaupaverð olíufélaganna, hefur breyst miðað við hráolíuverð á heimsmarkaði. Áhugavert var að sjá að grunnverðið fylgir breytingum á hráolíuverði nokkuð vel. Þá má sjá að á allra síðustu árum, þegar ný lög um endurnýjanlegt eldsneyti tóku gildi og byrjað var að blanda etanóli við bensín, hækkaði grunnverðið miðað við heimsmarkaðsverð hráolíu. Að sama skapi lækkaði grunnverðið á sama tíma og Costco kom á markaðinn.

Vindorkutengd verkefni

EFLA hefur síðastliðin fimm ár unnið að því að skapa sér sérstöðu á Íslandi í vindorkugeiranum og sagði Birta Kristín Helgadóttir, umhverfis- og orkuverkfræðingur, frá helstu viðfangsefnum því tengdu. Heilmörg tækifæri eru fólgin í því að nýta vind sem orkugjafa þrátt fyrir þær áskoranir sem því fylgja.

Umhverfismál í forgrunni

Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs, sagði frá helstu verkefnum þess en EFLA setur umhverfismál í öndvegi í allri starfsemi sinni. Þá fjallaði Helga um vistferilsgreiningar, en með slíkum greiningum eru umhverfisáhrif vöru, verkefna, framkvæmda eða hverskyns þjónustu metin. Út frá niðurstöðunum má sjá hvaða þættir valda mestum umhverfisáhrifum og hvernig mætti lágmarka þau áhrif. Niðurstöður vistferilsgreininga er m.a. hægt að nota til að birta kolefnisspor eða til að gefa út vottaða umhverfisyfirlýsingu vöru (EPD). Einnig má nota greiningarnar sem lið í vistvænni hönnun og vottun bygginga.

Vistferilsgreiningar í orkugeiranum

Alexandra Kjeld, umhverfisverkfræðingur, sagði frá áhugaverðum vistferilsgreiningum sem EFLA hefur unnið að, t.d. fyrir raforkuvinnslu með vatnsafli og vindorku hér á landi, og fyrir raforkuflutning á Íslandi og í Noregi. Sýnt var hvernig niðurstöðurnar hafa og geta beinlínis nýst í frekari ákvarðanatöku fyrirtækja.

Vistferilsgreining íslenskrar steinullar

Að endingu fjallaði Sigurður Thorlacius, umhverfisverkfræðingur, um fyrstu vistferilsgreininguna fyrir íslenskt byggingarefni, steinull sem framleidd er fyrir Steinull hf. á Sauðárkróki. Niðurstöður vistferilsgreiningarinnar sýndu að steinullin hefur, þrátt fyrir flutninga til meginlands Evrópu, allt að þrefalt minna kolefnisspor en sambærileg erlend steinull. Helsta ástæðan fyrir því er rafvæðing framleiðslunnar og að raforkan á Íslandi sé endurnýjanleg.

Við þökkum Konum í orkumálum fyrir ánægjulega kvöldstund og fyrir komuna til okkar.