Hádegisfundur Vegagerðarinnar um LOKA, nýjan kolefnisreikni fyrir innviði, fer fram í dag þriðjudaginn 4. júní kl. 11:30 til 12:30. Fundurinn verður í beinu streymi og verður hægt að fylgjast með honum hér að neðan.
Lífsferilsgreining og kolefnisspor innviða
Starfsfólk EFLU þróaði reiknirinn fyrir Vegagerðina í samstarfi við fleiri aðila, en fyrirmyndin fyrir LOKA kemur frá Noregi og Danmörku. Magnús Arason, byggingarverkfræðingur hjá EFLU, mun kynna aðkomu fyrirtækisins að verkefninu á hádegisfundinum. Sérfræðingar EFLU komu fyrst og fremst að uppbyggingu, þróun og gerð reiknisins.
Auk Magnúsar koma fram Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar sem kemur til með að opna fundinn, Páll Valdimar Kolka Jónsson, frá Vegagerðinni, sem ræðir um tilvist, tilgang og möguleika LOKA og Einar Óskarsson, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, sem mun ræða um notkun í raunheimum. Hólmfríður Bjarnadóttir verður fundarstýra.
LOKI metur kolefnisspor framkvæmda með samræmdum og einföldum hætti og er fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Nafnið er skammstöfun fyrir: „lífsferilsgreining og kolefnisspor innviða“ en reiknirinn metur kolefnisspor innviðaframkvæmda á hönnunarstigi með lífsferilsgreiningu, eða kolefnisspor yfir líftíma mannvirkisins. Hann mun einnig auðvelda val á efni og hönnun með tilliti til þess að draga úr kolefnisspori mannvirkisins.
Aðgengilegur öllum
LOKI er byggður upp í töflureikni og þar eru magntölur úr hönnun settar upp í takt við verkþáttaskrá Vegagerðarinnar. Í reikninum eru losunarstuðlar sem endurspegla íslenskar aðstæður. Hægt er að aðlaga reikninn að viðfangsefninu og eftir því hvaða efni á að nota í viðkomandi framkvæmdir. Nákvæmni útreikninganna eykst eftir því sem nær dregur framkvæmd.
Fyrsta útgáfa LOKA nær yfir framleiðslu hráefna og flutning á verkstað, framkvæmdina sjálfa og stærra viðhald á líftíma mannvirkisins. Á næstu árum mun hann svo þróast áfram til að ná yfir fleiri þætti og í takt við breytingar á stuðlum, orkugjöfum og hráefnum. LOKI verður notaður fyrir verk á vegum Vegagerðarinnar en kemur einnig til með að verðaaðgengilegur öllum sem hann vilja nota.