Málþing um fráveitu

06.05.2015

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Málþingið fer fram 8. maí kl. 9-12.15 í húsi Orkuveitu Reykjavíkur.

Málþing um fráveitu

EFLA á málþingi um fráveitulausnir á viðkvæmum svæðum

Mikil aukning í fjölda ferðamanna á Íslandi hefur orðið til þess að álag á ferðamannastaði verður sífellt meira. Salernisaðstaða á ferðamannastöðum er mikilvægt atriði í ferðaþjónustu en það getur verið áskorun að hanna hentugar salernis- og fráveitulausnir fyrir slíka staði, sér í lagi ef um afskekkta staði er að ræða. Undanfarin ár hefur EFLA unnið að því að leysa vatns- og fráveitumál fyrir ferðmannastaði, t.d. í Vatnajökulsþjóðgarði.

Á vordögum 2015 leiðbeindu Ragnhildur Gunnarsdóttir og Reynir Sævarsson, starfsmenn á umhverfissviði EFLU, hópi umhverfis- og byggingarverkfræðinema við HÍ við rannsóknarverkefni um fráveitumál á Þingvöllum. Hinn aukni ferðamannastraumur ásamt sumarbústaðabyggð nálægt Þingvallavatni veldur sífellt meiri áhyggjum vegna mengunaráhrifa þeirra á vatnið. Draga þarf úr magni næringarefna sem berast í vatnið, og ein leið til þess er að bæta skólphreinsun á svæðinu, en venjulegar rotþrær sem notast er við í dreifðum byggðarsamfélögum hreinsa slík efni einungis að litlum hluta.

Vatns- og fráveitufélag Íslands (VAFRÍ) hefur boðað til málþings til þess að ræða mögulegar fráveitulausnir til verndar Þingvallavatns en þar mun Ragnhildur kynna niðurstöður rannsóknarverkefnanna en þar sem fýsileiki þess að notast við óhefðbundnar salernis- og hreinsiaðferðir á Þingvöllum kannaður. Einnig mun Petter D. Jenssen, einn helsti sérfræðingur Norðurlandanna á sviði óhefðbundinna og náttúrulegra skólphreinsiaðferða, halda erindi um reynslu af slíkum hreinsiaðferðum á alþjóðlegum vettvangi. Málþingið fer fram 8. maí kl. 9-12.15 í húsi Orkuveitu Reykjavíkur.

Dagskráin

Aðgangur er ókeypis og áhugasamir eru beðnir að skrá sig hér fyrir 7. maí kl. 12