Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í innivist hjá EFLU, og Böðvar Bjarnason, tæknifræðingur hjá EFLU, taka þátt í málþingi fagráðs Betri bygginga og Iceiaq um loftgæði, rakaskemmdir og myglu í byggingum. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mun opna málþingið.
Málþing um rakaskemmdir og myglu
Síðustu misseri hafa rakaskemmdir fundist í mörgum byggingum með þeim afleiðingum að notkun og virði þeirra skerðist til muna. Opinberar stofnanir hafa ekki síst þurft að takast á við verkefni tengd rakaskemmdum og þ.m.t myglu vegna þeirra. Markmið málþingsins er að fá fram umræðu um þá þætti sem liggja að baki þeirrar stöðu sem er í dag og hvað megi betur fara til framtíðar.
Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir mun fjalla almennt um rakaástand bygginga og áskoranir tengdar því. Fyrsta skrefið til þess að takast á við rakavandamál í byggingum er að fagaðilar horfi á verkefnið á sama hátt. Þannig má tryggja að úrbætur og viðhaldsframkvæmdir beri árangur í átt að betri innivist fyrir notendur og auknu virði fasteignarinnar.
Böðvar Bjarnason mun taka þátt í pallborðsumræðum í lok málþingsins. Með honum verða dr. Björn Marteinsson arkitekt og verkfræðingur, Indriði Níelsson verkfræðingur, Verkís, Kristinn Alexandersson tæknifræðingur, VSÓ og Margrét Harðardóttur arkitekt, Studio Granda.
Málþingið verður haldið í Háskóla Reykjavíkur þriðjudaginn 18. október kl. 13 og einnig verður streymt frá málþinginu á visir.is.