Málþingið Orkuspár sem vísa veginn

28.04.2025

Fréttir
Vegur með fjall í baksýn.

EFLA stendur fyrir málþingi, Orkuspár sem vísa veginn, um orkuspár og orkumál mánudaginn 5. maí kl. 14 í höfuðstöðvum fyrirtækisins að Lynghálsi 4. Málþingið er haldið til að heiðra minningu Jóns Vilhjálmssonar, sem hefði orðið 70 ára þennan sama dag.

Grunnstoð í stefnumótun orkumála

Á málþinginu verður sjónum beint að mikilvægi orkuspáa í ákvarðanatöku og stefnumótun í orkumálum, þörfinni fyrir faglega umræðu og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í orkuskiptum þjóðarinnar.

Orkuspár gegna lykilhlutverki í að skapa sjálfbært og hagkvæmt orkukerfi. Þær gera kleift að tímasetja fjárfestingar í virkjunum og innviðum með skynsamlegum hætti, tryggja skilvirka nýtingu fjármuna og styðja við markmið um orkuskipti og kolefnishlutleysi. Með traustum gögnum og skýrri aðferðafræði er hægt að spá fyrir um þróun raforkuþarfar og meta hvaða innviðir þurfa að vera fyrir hendi á réttum tíma.

Minning brautryðjanda

Jón Vilhjálmsson, sem heiðraður verður sérstaklega á málþinginu, var frumkvöðull á sviði orkuspáa og hafði djúpan skilning á þeim þáttum sem móta orkuþörf þjóðarinnar. Hann starfaði að orkuspám í yfir fjóra áratugi og mótaði aðferðafræði sem hefur reynst vel og verið notuð lengi með góðum árangri.

Á síðustu árum hafa fleiri aðilar unnið að orkuspám með ólíkum forsendum, sem hefur vakið spurningar um samhæfingu og sameiginlega sýn. Með stofnun Umhverfis- og orkustofnunar 1. janúar 2025 verður orkuspágerð hluti af hennar verkefnum. Þörfin fyrir samræmda og áreiðanlega framtíðarsýn hefur aldrei verið meiri, þar sem orkuskipti, ný tækni og ytri áhrif eins og þróun í ferðaþjónustu skapa síbreytilegar forsendur.

EFLA hefur í áratugi verið í fararbroddi þegar kemur að orkuspám og ráðgjöf í orkumálum. Þekking og reynsla EFLU á þessu sviði spannar fjölbreytt verkefni, bæði fyrir opinbera aðila og einkaaðila, þar sem dýpt greininga og samhengi við önnur samfélagsleg markmið skipta sköpum.

Nánari upplýsingar og skráning á málþing má finna hér.