Nýr vefur fyrir Matarspor

18.09.2019

Fréttir
Two men in front of promotional banners, one speaking into a microphone and another one observing

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, við opnun Matarspors hjá Orkuveitunni. Mynd OR.

EFLA hefur opnað nýjan vef, Matarspor, sem reiknar út og sýnir kolefnisspor máltíða á myndrænan og upplýsandi hátt. Formleg opnun Matarspors fór fram í dag hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem jafnframt er fyrsta fyrirtækið sem tekur vefinn í notkun.

Matarspor er ætlaður mötuneytum og matsölustöðum og ber saman kolefnisspor þeirra máltíða og matvæla sem á boðstólum eru á myndrænan hátt. Kolefnissporið er svo sett fram í samhengi við það hversu langt þyrfti að aka fólksbíl til að losa sama magn gróðurhúsalofttegunda. Matarspor hefur verið í þróun hjá EFLU um nokkurra mánaða skeið og er hugsaður til að auðvelda fólki að taka upplýsta ákvörðun um eigin neyslu og auka umhverfisvitund þess.

Formleg opnun hjá fyrsta fyrirtækinu

Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélögin Veitur, Gagnaveitan og ON, tóku kolefnisreikninn í notkun í mötuneytinu að Bæjarhálsi 1 í dag að viðstöddum umhverfisráðherra, forsvarsmönnum EFLU og starfsfólki. OR er fyrsta fyrirtækið sem tekur Matarspor í notkun og var gestum boðið að vera viðstaddir formlega opnun af því tilefni.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, bauð gesti velkomna og sagði frá vegferð OR við að draga úr matarsóun. Það var til dæmis gert með því að hvetja til minni matarskammta, minnka matardiska og bjóða starfsfólki að taka matarafganga úr mötuneytinu með sér heim á föstudögum. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og hefur matarsóun hjá OR minnkað um 40% frá árinu 2017.

A man speaking into a microphone in front of promotional banners

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar. Mynd: OR.

Félagslegt-, jafnréttis- og efnahagslegt málefni

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók einnig til máls og nefndi að það væru margar hliðar á málefninu. Ekki væri bara hægt að tala um matarsóun í tengslum við mat og mötuneyti heldur líka hvernig mat við veljum með tilliti til kolefnisspors þess. Í máli Guðmundar kom fram: „Allur matur sem er sóaður í dag er þriðjungur af allri matvælaframleiðslu heimsins og gæti fætt 3 milljarða manna. Þetta er því stórt félagslegt mál, jafnréttismál og snertir okkur öll. Þetta er líka stór þáttur í losun allra ríkja en síðan er það efnahagslega hliðin; það er verið að brenna peninga með því að henda mat.“ Þá sagði Guðmundur frá stofnun vinnuhóps sem vinnur að tillögum að aðgerðum Íslands í loftslagsmálum sem snýr að matarsóun. „Öll tól og tæki sem geta gert neytendur og fyrirtæki meðvituð um það hvert kolefnissporið er skiptir miklu máli og er ég afar ánægður með framtakið hjá EFLU og vona að Matarspor verði tekið í notkun víðar.“

Upplýsa neytendur, framleiðendur og mötuneyti

Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs EFLU, sagði næst frá tilurð Matarspors sem þróaðist eftir Umhverfisviku EFLU sem haldin er árlega. Þá þróaði EFLA matarreikni til að reikna út kolefnisspor máltíða og setti fram með myndrænum hætti. Matarreiknirinn vakti mikla umræðu bæði innanhúss og utan en eftirspurn olli því að verkefnið þróaðist áfram í þá vöru sem Matarspor er í dag. En hvað er Matarspor? „Matarspor er matarreiknir og stór gagnagrunnur sem ber saman ólíkar máltíðir og setur kolefnisspor þeirra fram á upplýsandi máta. Á bak við hver einustu erlendu matvæli er kolefnissporið fengið úr safngreiningu, og íslensku gögnin fengin úr innlendum vistferilsgreiningum, bæði okkar eigin og annarra. Til að laga þetta að framsetningunni er hægt að velja um hvort maturinn er fluttur inn til landsins með flugi, sjóleið eða akstri. Á bak við greiningarnar er allur vistferill matvælanna - þetta eru meðaltalstölur og því getur breiddin verið nokkur fyrir hvert og eitt matvælanna. Okkar hugsun með Matarspori er líka að hvetja framleiðendur til að framleiða vörur sem eru umhverfisvænar.“ sagði Helga.

A woman speaking into a microphone in front of promotional banners

Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs EFLU. Mynd: OR.

Vinnustaður sem lætur sig umhverfismál varða

Sólrún Kristjánsdóttir, mannauðssstjóri Orkuveitunnar, hélt einnig stutta tölu og sagði að Matarspor væri frábært tæki fyrir Orkuveituna til að hjálpa til við að ná markmiðum í umhverfismálum, hjálpa mötuneyti að velja ábyrgt inn og líka að skapa vettvang til að starfsmenn verði ábyrgir neytendur. „Til þess þurfum við að hafa góðar forsendur, við viljum ekki segja fólki hvað það eigi að velja á diskinn sinn heldur erum við að upplýsa með áhrifaríkri framsetningu.“ Sólrún nefndi einnig að þessar upplýsingar hefðu líka áhrif á starfsánægju og sem grundvallarstoð að gera vinnustaðinn eftirsóknarverði. „Þá hefur þetta áhrif á ungt fólk sérstaklega sem lætur sig umhverfismálin varða og þess vegna er ég mjög ánægð og spennt fyrir þessu framtaki sem Matarspor er.“

A bar chart comparing food items

Fyrsti matseðill mötuneytis OR úr matarreikninum Matarspori sem sýnir samanburð á kolefnisspori tveggja ólíkra máltíða.

Samábyrgð einstaklinga, fyrirtækja og opinberra aðila

Matarspor er nauðsynlegt upplýsingatól gagnvart áskorunum í loftslags- og umhverfismálum. Innlendur landbúnaður veldur 13% losunar í kolefnisbókhaldi Íslands og er þá ótalin losun vegna framleiðslu matvæla erlendis og innflutnings þeirra. Í núverandi Aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, og í loftslagsstefnum fjölda fyrirtækja og stofnana, er sjónum beint að matarsóun og kolefnisspori máltíða. Margir hafa sett sér töluleg og mælanleg markmið um að draga úr losun frá mötuneytum sínum fyrir árið 2030. Lykilaðgerðir í þeirri vegferð eru að draga úr matarsóun, að einfalda miðlun upplýsinga til þeirra sem borða í mötuneytum og að nýta upplýsingarnar við innkaup matvæla.

Að baki reiknisins liggja bestu fáanlegu upplýsingar

Matarspor byggir á stórri safngreiningu innlendra og erlendra rannsókna sem gerðar hafa verið með aðferðafræði vistferilsgreiningar (e. Life Cycle Assessment). Slíkar rannsóknir eru staðlaðar og taka mið af umhverfisáhrifum á öllum líftímanum, þ.e. vegna breytingar á landnotkun, framleiðslu fóðurs, reksturs býlis og áburðarnotkunar, vinnslu matvæla, flutninga og umbúða, nema annað sé tekið fram. Flutningar matvæla til Íslands eru teknir með í reikninginn og eru sýndir sérstaklega þannig að notandinn geti auðveldlega áttað sig á hversu stóran þátt flutningar eiga í kolefnissporinu.

Áhrif matvælaframleiðslu á hlýnun jarðar

Ein mesta ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag er hnattræn hlýnun vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Stærstu loftslagsmálin í heiminum í dag varða orkuskipti, iðnað, landnotkun og landbúnað. Hlutdeild matvælaframleiðslu og virðiskeðju hennar í allri losun heimsins er svo talin 21-37% á árabilinu 2007 – 2016 samkvæmt nýrri skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC), sem kynnt var í ágúst sl.

Ekki bara loftslagsmál

Losun gróðurhúsalofttegunda er eingöngu einn mælikvarði á umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu. Í nýrri skýrslu IPCC um loftslagsáhrif matvælaiðnaðarins eru lagðar til aðgerðir til að sporna við áhrifunum, t.d. að draga úr matarsóun og úrgangsmyndun, breyta neysluhegðun manna og auka sjálfbærni í landbúnaði. Þessar aðgerðir geta á sama tíma dregið úr öðrum umhverfis- og samfélagsáhrifum matvælaframleiðslu, t.d. eyðingu lands og skóga og ofnýtingu vatnsauðlinda, og geta haft jákvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni, heilsu manna og útrýmingu fátæktar.

Upplýstar ákvarðanir um eigin neyslu

Hvert er vægi sjó- og landflutninga í kolefnisspori matvæla og máltíða? Hvort er fiskur eða kjúklingur með stærra kolefnisspor? Svar við þessum spurningum og fleiri fæst svarað með þjónustuvefnum. Matarspor birtir kolefnisspor máltíða með myndrænum hætti og auðveldar þannig notendum að taka upplýsta ákvörðun um eigin neyslu. Hugbúnaðurinn er þannig vel til þess fallinn að auka umhverfisvitund notenda en hann getur einnig gagnast ábyrgðaraðilum við innkaup og til að þróa loftslagsvænni máltíðir.

A logo featuring a fork and knife encircled and Icelandic texts