Nýr þjónustuvefur EFLU, Matarspor, sem reiknar kolefnisspor máltíða hefur vakið mikla athygli og starfsfólk verið ötult að kynna þjónustuna. Um er að ræða fyrsta kolefnisreikni máltíða hérlendis.
Matarspor vekur eftirtekt
Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri samfélagssviðs EFLU, hefur haft í mörgu að snúast við að fræða áhugasama um nýsköpunarframtakið Matarspor. Nýi þjónustuvefurinn reiknar út kolefnisspor ólíkra máltíða og er sniðinn að mötuneytum og matsölustöðum. Hugmyndafræði Matarspors er að auðvelda fólki til að taka upplýsta ákvörðun um eigin neyslu og auka umhverfisvitund þess. Samhliða því að kynna þjónustuna í fyrirtækjum hefur Helga verið fengin til að halda erindi á ráðstefnum og farið í viðtöl í fjölmiðlum.
Kolefnisspor máltíða tekur mið af öllu vistferlinu
Matarspor reiknar út kolefnisspor máltíða, ber saman ólíkar máltíðir og matvæli og birtir niðurstöðurnar á myndrænan hátt. Kolefnissporið er síðan sett í samhengi við það hversu langt þyrfti að aka fólksbíl til að losa sama magn gróðurhúsalofttegunda. Þegar kolefnisspor matar er fundið út eru teknar inn upplýsingar um allan vistferilinn og er þannig tekið mið af allri virðiskeðjunni - landnotkun, framleiðsla fóðurs, rekstur býlis, vinnsla matvöru, flutningar, umbúðir og sala. Út frá niðurstöðum fjölda ólíkra greininga er svo fundin meðaltalstala fyrir hverja matvöru.
Ráðstefna um neyslubreytingar og matvælaframleiðslu
Matvælalandið Ísland og Landbúnaðarklasinn héldu ráðstefnu þann 5. nóvember á Hótel Sögu um neyslubreytingar og áhrif þeirra á matvælaframleiðslu. Þar var sjónum beint að þeim breytingum á neysluhegðun almennings og þeim tæknibreytingum sem munu snerta matvælageirann í framtíðinni.
Helga hélt erindi um Matarspor á ráðstefnunni og sagði frá aðdraganda kolefnisreiknisins sem byrjaði sem hugmynd starfsmanna frá árlegri Umhverfisviku EFLU. „Neytendur vilja geta tekið upplýsta ákvörðun, sem byggist á gagnsæi út frá ákveðnum forsendum og gögnum. Í dag eru í gagnagrunni Matarspors um 60 matvörur– allar þær íslensku upplýsingar sem til eru og síðan erlendar vistferilsgreiningar fyrir aðrar vörur. “ var meðal þess sem kom fram í máli Helgu.
Hægt er að horfa á upptöku af erindi Helgu á vef Bændasamtakanna.
Sjónvarpsþátturinn 21 á Hringbraut
Helga, ásamt Thor Aspelund prófessor við Háskóla Íslands, fór í frétta- og umræðuþáttinn 21 miðvikudaginn 12. nóvember á Hringbraut og var umræðuefnið kolefnisspor matarins. Í þættinum sagði Helga meðal annars frá því að eftir að farið var að birta upplýsingar um kolefnisspor máltíða í mötuneyti EFLU hafi orðið umtalsverð aukning á neyslu grænmetis meðal starfsmanna í hádegismatnum. Jafnframt benti Thor á að mikil vakning hafi orðið meðal fólks um að gera þurfi grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi ræktunar og vinnslu matar vegna örrar fólksfjölgunar.
Hægt er að horfa á sjónvarpsþáttinn á vefnum.
Nýsköpunarráðstefna Heilbrigðisvísindasviðs
Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands efndi til fjórðu nýsköpunarráðstefnunnar föstudaginn 15. nóvember í Veröld – húsi Vigdísar. Matarspor var eitt af þeim nýsköpunarverkefnum sem sagt var frá á ráðstefnunni. Helga sagði frá tilurð Matarspors, hvernig virkni reiknivélarinnar væri og hvaða gögn væru að baki útreikningunum. Einnig benti Helga á að framleiðendur matvæla geta haft reikninn til hliðsjónar til að framleiða vörur sem eru umhverfisvænar og væri þannig öflugt upplýsingatól gagnvart áskorunum í loftslags- og umhverfismálum.
Nánari upplýsingar um Matarspor má finna á vefsíðu EFLU.