Starfsemi á iðnaðarsviði EFLU á Vestfjörðum hefur aukist verulega að undanförnu. Teymið á sviðinu hefur tvöfaldast á árinu og verkefnunum fjölgað til muna.
Fjölbreytt verkefni og aukinn kraftur
Skúli Þorsteinn Norðfjörð hefur starfað einn á iðnaðarsviði EFLU á Ísafirði þar til Daníel Einarsson úr vélateymi EFLU bættist við á þessu ári. „Þetta hefur verið stórt skref fyrir okkur og opnað á enn fleiri möguleika fyrir þjónustu við iðnað á svæðinu,“ segir Skúli Þorsteinn.
Verkefnin sem teymið sinnir eru fjölbreytt og spanna allt frá iðntölvuforritun og rafmagnsteikningum til þrívíddarprentunar og vélaeftirlits. Sem dæmi má nefna:
- Hönnun á skjákerfi fyrir laxavinnsluhúsið Drimlu, Bolungarvík (Arctic Fish)
- Endurbætur á stjórnkerfi og rafmagni í hakkavél hjá Drimlu, Bolungarvík.
- Rannsóknir á bilaðri borholu í Súðavík fyrir Vatnsveitu sveitarfélagsins
Daníel hefur einnig tekið að sér stór verkefni, m.a. fyrir Veitur ohf., Norðurál og Mjólkursamsöluna. „Hjá MS er verið að hanna vélar frá grunni. Vélarnar taka vörur úr framleiðslu og komum þeim fyrir á bretti. Þetta er sambland af Cobotum, línulegum róbotum, bakkamöturum og færiböndum sem vinna saman,“ útskýrir Daníel.
Fjölgun starfsmanna og breið þekking
Skrifstofa EFLU Vestfjörðum hefur stækkað gríðarlega á síðustu tveimur árum. Árið 2022 störfuðu þar þrír starfsmenn, en í dag eru starfsmenn orðnir átta – aukning um 170%. Skrifstofan er nú þétt setin og þar starfa sérfræðingar á sviði vegagerðar, byggingarmála, skipulags, drónaflugs, rafkerfa og vélahönnunar.
„Við erum stærsta ráðgjafa- og verkfræðistofan á svæðinu með breiða þekkingu sem gagnast fjölbreyttum verkefnum,“ segir Skúli. „Markmið okkar á nýju ári er að styrkja enn frekar stöðu EFLU á Vestfjörðum, afla verkefna og kynna þá sérfræðiþekkingu sem við bjóðum upp á,“ bætir hann við.
Iðnaðarsvið EFLU á Vestfjörðum horfir björtum augum á framtíðina, þar sem verkefni á sviði vélahönnunar, iðntölvuforritunar og nýsköpunar halda áfram að þróast. „Við erum staðráðin í að vera sýnilegt afl á Vestfjörðum og veita iðnaðinum þá þjónustu og sérfræðiþekkingu sem hann þarf á að halda,“ segir Daníel að lokum.