Náttúrulaugar Vök Baths opna

27.07.2019

Fréttir
Geothermal bath facility nestled along the edge of a blue lake

Vök Baths er nýr og glæsilegur náttúrubaðstaður við Urriðavatn, rétt utan við Egilsstaði. Mynd: Vök Baths.

Við Urriðavatn, rétt fyrir utan Egilsstaði hefur nýr baðstaður, Vök Baths, verið opnaður. Aðal kennimerki staðarins eru heitar náttúrulaugar sem fljóta við bakka vatnsins, en þar má einnig finna laugarbar, köld úðagöng og veitingastað í glæsilegu mannvirki í fallegu umhverfi. EFLA sá um alla verkfræðihönnun baðstaðarins.

Vök Baths

Mikil eftirvænting hefur verið fyrir opnun nýs baðstaðar, Vök Baths, við Urriðavatn um 5 km norðvestur af Egilsstöðum. Um er að ræða heitar náttúrulaugar sem eru kyntar með jarðhitavatni úr borholum Urriðavatns. Eitt helsta aðdráttarafl staðarins verða án efa Vakirnar, sem eru fljótandi laugar, staðsettar úti í vatninu. Laugarnar eru fyrstu fljótandi laugar landsins og skapa einstaka náttúruupplifun fyrir baðgesti.

Drykkjarhæft jarðhitavatn

Á staðnum er einnig föst laug með laugarbar og veitingastaður sem býður m.a. upp á jarðhitate og bjór bruggaðan úr jarðhitavatninu, en vatnið eykur enn á sérstöðu staðarins þar sem það er það eina á landinu sem hefur verið vottað drykkjarhæft af heilbrigðisyfirvöldum.

Verkfræðihönnun staðarins

Framkvæmdir við Vök Baths hófust síðastliðið vor og er byggingin yfir þúsund fermetrar. Búast má við að staðurinn verði eftirsóttur af ferðamönnum og fyrir vikið lyftistöng fyrir atvinnulífið á Fljótsdalshéraði.

EFLA sá um verkfræðihönnun allra mannvirkja utan flotlauga, auk hefðbundinnar byggingahönnunar sem var meðal annars fólgin í ráðgjöf við sundlaugakerfi, loftræsingu og hússtjórnarkerfi. Hönnun hússins var í höndum Basalt arkitekta og voru innviðir þess hannaðir í samstarfi við Design Group Italia.

Það var hefur verið virkilega ánægjulegt að vinna með Vök Baths og öðrum samstarfsaðilum í þessu verkefni og óskum við þeim hjartanlega til hamingju með þennan einstaka og glæsilega stað.