Ný göngubrú opnuð í Bergen

19.12.2018

Fréttir
A red bridge against a backdrop of a calm body of water and hilly terrrain

Nunnubrúin í Bergen, eða Nonnekloppen eins og hún heitir á móðurmálinu.

Ný göngu- og hjólabrú á Nygårdstangen í Bergen hefur verið opnuð. EFLA hannaði brúna í samstarfi við Studio Granda ásamt því að sjá um hönnun á nýjum göngu- og hjólastíg, lýsingu, stoðveggjum og fyllingum í sjó.

Brúin, sem er 6 m breið og 72 m löng, er byggð sem lokaður, loftþéttur stálkassi með breytilegri þversniðshæð sem komið er fyrir á steyptum stöplum sem standa á stauraundirstöðum. Á miðju 60 m löngu aðalhafi brúarinnar er þversniðshæð stálkassans einungis 89 cm og er því 1,5 tonna þungur massadempari byggður inn í brúna til að draga úr titringi við álag frá gangandi vegfarendum.

Umhverfisvænn ferðamáti

Verkefnið er hluti af Miljøløftet sem er samvinnuverkefni ríkis, fylkis og borgarinnar Bergen sem miðar meðal annars að uppbyggingu á almenningssamgöngum og hjólastígum og aukningu í hlutdeild umhverfisvænna ferðamáta í borginni.

Almenningur tók þátt í nafnasamkeppni

Brúin hefur fengið nafnið Nonnekloppen eða Nunnubrúin eftir að samkeppni um val á nafni var haldin meðal íbúa borgarinnar fyrr í haust þar sem hátt í 600 tillögur bárust.

Brúin var formlega tekin í notkun föstudaginn 14. desember og er verkkaupinn vestursvæði norsku vegagerðarinnar.

Sjá verkefnalýsingu.