Ný miðstöð sjálfbærni og menningar á Ströndum

15.07.2025

Fréttir
Gamalt steypuhús með skilti.

Í Djúpavík í Árneshreppi er nú unnið að stofnun Baskaseturs, alþjóðlegrar miðstöðvar sem sameinar menningu, sjálfbærni og sögu. Verkefnið, sem fékk styrk úr Samfélagssjóði EFLU, miðar að því að varpa ljósi á samspil manns og náttúru með sérstakri áherslu á hafið, súrnun sjávar og plastmengun.

Baskneskir hvalveiðimenn

Setrið byggir á alþjóðlegu samstarfi við stofnanir á Íslandi, Spáni og í Frakklandi og sækir innblástur í sögulega tengingu svæðisins við baskneska hvalveiðimenn. Fyrri hluti sýningarinnar hefur þegar verið opnaður í gömlum lýsistanki síldarverksmiðjunnar í Djúpavík, en nú stendur til að ljúka seinni áfanga verkefnisins. Stefnt er að opnun í september á þessu ári.

Hugmyndin að verkefninu á rætur að rekja til æsku frumkvöðulsins, Héðins Birnis Ásbjarnarsonar, sem ólst upp í Djúpavík og kynntist sögu baskneskra hvalveiðimanna í gegnum fornleifafræðinginn Bjarna Einarsson. Eftir að Árneshreppur var skilgreindur sem brotthætt byggð árið 2018 hófst vinna við að styrkja atvinnulíf og nýsköpun í hreppnum. Baskaverkefnið vakti strax áhuga og hlaut styrk úr Evrópusjóðum árið 2022, auk stuðnings frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Alþjóðlegt samstarf

Samstarfsaðilar verkefnisins gegna lykilhlutverki í þróun sýningarinnar. Albaola í Baskalandi á Spáni er fornskipasmíðastöð sem nýtur viðurkenningar UNESCO fyrir varðveislu baskneskrar skipasögu. Heisabegi-tónlistarhátíðin í Frakklandi bætir við menningarlegum vinkli með áherslu á baskneska og framúrstefnulega tónlist. Þá er Háskólasetur Vestfjarða mikilvægur samstarfsaðili sem tengir verkefnið við fræðasamfélagið og nærsvæðið.

Söguleg tenging við baskneska hvalveiðimenn er nýtt á áhrifaríkan hátt í sýningunni, þar sem saga skipbrota og átaka frá árinu 1615 er sögð með hljóði, myndum og áþreifanlegum hlutum eins og bátalíkönum og líkönum af hvölum.

Verkefnið hefur þegar haft jákvæð áhrif á samfélagið í Árneshreppi og er vonast til að það styrki ferðaþjónustu og menningarlíf svæðisins til framtíðar. Með reglulegri uppfærslu sýningarinnar og möguleikum á tímabundinni dvöl og vinnu fyrir gesti og námsmenn, er markmiðið að gera Baskasetrið að einu helsta aðdráttarafli menningartengdrar ferðaþjónustu á Vestfjörðum.

Veittir eru styrkir úr Samfélagssjóði EFLU tvisvar á ári. Hægt er að fá frekari upplýsingar og sækja um styrki á vefsíðu sjóðsins.