Ný skýrsla um loftslagsávinning endurnýtingar steinsteypu

25.06.2021

Fréttir
An urban scene with bicycle lane and cars parked alongside

Hjólastígur í Reykjavík

EFLA vann að rannsóknarskýrslu fyrir Vegagerðina um ávinning af endurnýtingu steypuúrgangs sem fyllingarefni í vegbyggingu.

Ný skýrsla um loftslagsávinning endurnýtingar steinsteypu

Umhverfisteymi EFLU vann verkefnið með það að markmiði að meta hugsanlegan umhverfislegan ávinning af endurnýtingu steypuúrgangs sem fyllingarefni í vegbyggingu, í stað þess að sækja nýtt efni úr námu. Við matið var stuðst við aðferðafræði vistferilsgreiningar og gerðir einfaldaðir útreikningar á kolefnisspori dæmigerðs hjólastígs á höfuðborgarsvæðinu, eftir því hvaða fyllingarefni eru notuð í styrktarlag stígsins. Við gerð hefðbundins stígs eru fyllingarefni sótt í námu, með tilheyrandi greftri eftir steinefnum, broti þeirra og akstri, en til skoðunar er að nýta steypu úr niðurrifnum byggingum sem fyllingarefni í hjólastíga.

Bar graph comparing different types of material

Niðurstöður vistferilsgreiningar á hjólastíg. Í sviðsmynd 1 er steypa úr byggingum notuð í styrktarlagið en í sviðsmynd 2 eru jarðefni úr námu notuð í burðar/-styrktarlagið.

Áhugaverðar niðurstöður

Niðurstöður útreikninganna sýna að með því að nýta steypuúrgang innan höfuðborgarsvæðis í fyllingu eða burðar-/styrktarlag í stað þess að sækja efni úr námu utan höfuðborgarsvæðis hljótist loftslagsávinningur upp á um 8 kg CO2-ígilda fyrir hvern rúmmetra fyllingar eða burðar-/styrktarlags sem samsvarar um 27 kg CO2-ígilda á hvern lengdarmetra stígs. Auk þess verður nýting takmarkaðra auðlinda betri, annars vegar með endurnýtingu steypu og hins vegar með betri nýtingu jarðefnaauðlinda úr námum. Sá þáttur sem vó þyngst í útreikningum á losun gróðurhúsalofttegunda var akstur byggingaefna milli verkstaða. Sé stígurinn byggður skammt frá niðurrifsstað byggingar hefur endurnýtingin jákvæð umhverfisáhrif, en með aukinni fjarlægð minnka jákvæðu áhrifin, hverfa jafnvel eða verða neikvæð.

Greiningin leiðir því bersýnilega í ljós að sá kostur sem felur í sér minnstan flutning á efni, hvort heldur sem er nýtt efni úr námu eða steypuúrgang frá niðurrifsstað, er umhverfisvænni kostur m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda.

Skýrslan í heild sinni er aðgengileg á vef Vegagerðarinnar:

Loftslagsávinningur af endurnýtingu steypu í stígagerð