Ný uppfærsla á Matarspori, kerfi sem reiknar út og birtir upplýsingar um kolefnisspor, næringargildi, ofnæmisvalda og matarsóun fyrir mötuneyti og veitingastaði, var gefin út í gær.
Fjöldi nýjunga
Matarspor er í stöðugri þróun í samráði við viðskiptavini og ýmsar viðbætur fylgja nýrri uppfærslu kerfisins. Þar má nefna:
- Leitargluggi fyrir máltíðir: Til að auðvelda matreiðslufólki að finna máltíðir er nú hægt að slá inn leitarstreng til að leita í uppskriftabankanum en áður þurfti að skruna í gegnum langan fellilista.
- Bætt viðmót: Nú er auðveldara að fletta á milli daga og vikna á síðunni sem birtir kolefnisspor, næringargildi og ofnæmisvalda máltíðanna. Farsímaviðmótið hefur einnig verið betrumbætt og er nú mun notendavænna en áður.
- Fleiri matvæli: Gagnagrunnur Matarspors er í stöðugri þróun og inniheldur nú 522 matvæli. Í þessari uppfærslu bættust við ýsa, kúrbítur, pekanhnetur, smjörbaunir, vegan rjómi, grísasnitsel, kjúklingasnitsel, döðlur og smjördeig. Samhliða voru tekin út matvæli sem eru ekki fáanleg eða sjaldséð á Íslandi.
- Fleiri ofnæmisvaldar: Eftir ábendingar notenda var hvítlauk, lauk, kókos og kíví bætt við sem ofnæmisvöldum.
Í hvers kyns veitingarekstri er mikilvægt að halda utan um og birta ofnæmisvalda. Matarspor listar sjálfkrafa upp líklega ofnæmisvalda jafnóðum og matvæli eru valin. Kokkurinn fer síðan yfir listann til að tryggja að hann sé réttur, enda geta innihaldsefni verið mismunandi í samsettum matvælum eins og t.d. pestó.

Fleiri en tíu þúsund notendur
Stöðugt fjölgar í hópi notenda Matarspors. Nýjustu viðskiptavinirnir eru Landsvirkjun og Landspítalinn og eru nú níu fyrirtæki í áskrift að Matarspori. Áætlað er að samanlagður fjöldi notenda, þ.e. starfsfólks og gesta, sem hafa aðgang að Matarspori séu á bilinu 10.000 – 20.000 manns.
Matvælaframleiðsla veldur 25% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og því er mikilvægt að við séum meðvituð um kolefnisspor matarins. Í gagnagrunni Matarspors er kolefnisspor matvæla fengið úr vistferilsgreiningum, sé þess kostur, þar sem kolefnissporið er metið yfir alla virðiskeðju matvælanna. Matarspor styðst aðallega við íslensk gögn, ef þau eru fyrir hendi, en að öðru leyti eru notuð gögn úr dönskum gagnagrunni.