Nýjar upplýsingar um orkuskiptin

13.11.2024

Fréttir
Þrjú rafmagnsmöstur á grænu grasi, blár himinn og ský á himni

Hvar stendur Ísland í orkuframleiðslu og orkunotkun í alþjóðlegum samanburði? Þessu og fleiri áhugaverðum spurningum verður svarað á opnum fundi í Kaldalóni í Hörpu fimmtudaginn 14. nóvember.

Uppfærð gögn um orkuframleiðslu og orkunotkun

Starfsfólk EFLU er meðal þátttakenda á þessum opna fundi. Ágústa Loftsdóttir, sérfræðingur hjá EFLU, mun kynna nýjar upplýsingar um orkuskiptin og útskýra á hvaða gögnum þær byggja ásamt Hauki Ásberg Hilmarssyni, sérfræðingi hjá Landsvirkjun. Þá mun Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, fara stuttlega yfir það af hverju breytingar á síðustu tveimur árum kalla á uppfærðan orkuskiptavef.

Guðmundur Þorbjörnsson, viðskiptaþróun EFLU, mun taka þátt í umræðum eftir þessar kynningar. Með honum verða Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku. Fundarstjóri verður Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta hjá Landsvirkjun.

Orkuframleiðsla Íslands í alþjóðlegu samhengi

Sagt hefur verið að Ísland framleiði mesta orku á mann í heimi en það er mikilvægt að skoða þetta í alþjóðlegu samhengi. Þegar litið er á samanburð við Norðurlöndin, þar sem tekið er mið af stærð landanna, má sjá hvernig Ísland stendur hvað orkuframleiðslu varðar. Til að ná fram fullum orkuskiptum þarf að skoða hvaða orkukosti Ísland hefur í boði og hvaða virkjanakostir eru samkeppnishæfir í framtíðinni.

Á nýuppfærðum vef orkuskipti.is verður orkuframleiðsla og orkunotkun Íslands sett í alþjóðlegt samhengi og nýjar upplýsingar kynntar sem byggja á nýjustu gögnum og greiningu.

Verkefnið er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samorku, Landsvirkjunar, EFLU og Grænvangs.

Auglýsing um opinn fund.