Nýr búnaður notaður til umferðargreiningar

15.05.2019

Fréttir
A silver car stopped at traffic lights

Nýi búnaðurinn gerir kleift að greina umferð á nákvæman máta.

Síðastliðið haust fékk EFLA nýjan búnað til að gera ítarlegar greiningar á umferð. Búnaðurinn var notaður í rannsókn þar sem umferð á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar var skoðuð. Meðal þess sem kom fram var að 24 af hverjum 10.000 bílum reyndust aka gegn rauðu ljósi.

Nýr búnaður notaður til umferðargreiningar

Rannsóknin var gerð dagana 3.-6. desember 2018 og umferð talin yfir allan sólarhringinn, bæði gangandi, akandi og hjólandi vegfarendur. Markmið verkefnisins var að kanna tíðni aksturs gegn rauðu ljósi á annatíma. Ákveðið var að greina akstur gegn rauðu ljósi þann 5. desember því aðstæður voru bestar þá og að skoða tímann milli 16-19 en vitað er að flest slys vegna aksturs gegn rauðu ljós verða á þeim tíma.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar var að 24 af hverjum 10.000 bílum reyndust aka gegn rauðu ljósi. Athygli vakti að flestir sem fóru yfir á rauðu ljósi voru á sér vinstri beygju fasa. Skýrsluhöfundar mælast til þess að rannsaka tíðni aksturs gegn rauðu ljósi á fleiri gatnamótum og bera saman áhrif ef ljósastýringum yrði breytt eða með uppsetningu löggæslumyndavéla.

Nákvæm myndgreining með nýjum búnaði

Búnaðurinn sem var notaður til að greina tíðni umferðarinnar á staðnum heitir Miovision og er nýkominn til notkunar hjá EFLU. Með honum er myndband af umferðinni tekið upp og sent til greiningar hjá samgöngusviði EFLU. Úr myndgreiningunni fást upplýsingar um hversu margir fóru um gatnamótin og hversu stórir straumarnir eru yfir sólarhring eða alveg niður í hvert 5 mínútna tímabil. Einnig fást upplýsingar um hversu hátt hlutfall ökutækja er fólksbílar, mótorhjól, strætisvagnar, þungir bílar, gangandi og hjólandi vegfarendur. Búnaðurinn hefur einnig verið notaður til að mæla ferðatíma á vegköflum í öðrum verkefnum. Hægt er að nota búnaðinn til að taka upp myndband í 3 sólarhringa, jafnvel lengur.

Skýrslan | Akstur gegn rauðu ljósi