Nýtt sjúkrahótel með hæsta skor vistvottunar á Íslandi

01.02.2019

Fréttir
Multi-story building with a geometric architectural design

Nýtt sjúkrahótel Landspítalans hefur verið afhent og stefnt er að opnun þess í apríl.

Sjúkrahótel Landspítalans við Hringbraut var afhent formlega fimmtudaginn 31. janúar. EFLA kom að byggingu sjúkrahótelsins með fjölbreyttum hætti og sá m.a. um ráðgjöf vegna umhverfisvottunar samkvæmt BREEAM. Byggingin fékk hæstu einkunn í vistvottun sem hús hefur fengið hingað til hér á landi.

Nýtt sjúkrahótel

Hönnun hússins hefur verið vottuð samkvæmt alþjóðlega BREEAM umhverfisvottunar­staðlinum og er skor hússins það langhæsta sem gefið hefur verið íslensku húsi eða 81% sem er "Excellent" einkunn. EFLA sá um ráðgjöf vegna BREEAM vottun byggingarinnar og sinnti hlutverki viðurkennds matsmanns fyrir umhverfisvottunina. Markmið vistvænnar hönnunar eru m.a. þau að byggingin hafi sem minnst umhverfisáhrif á lítfíma sínum, að hún sé heilsusamleg fyrir notendur og að viðhaldsþörf verði sem minnst.

Með vottuninni er verið að stíga mikilvægt framfaraskref með sjónarmið umhverfisþátta í huga þar sem vistvænir þættir skipti miklu máli við hönnun og byggingu hússins. Stefnt er á að ljúka vottun á fullbúinni byggingu bráðlega.

Fyrsti áfangi í heildaruppbyggingu

Í tilefni formlegrar afhendingar sjúkrahótelsins komu saman aðilarnir sem unnu að framkvæmdunum, ásamt gestum, og gerðu sér glaðan dag á opnu húsi. Landspítalinn mun sjá um rekstur sjúkrahótelsins og er stefnt að það verði opnað í apríl næstkomandi Sjúkrahótelið er fyrsti áfangi í heildaruppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut.

Framkvæmdir við sjúkrahótelið hófust árið 2015 og er það á fjórum hæðum ásamt kjallara. Húsið er 4.258 fermetrar að stærð (brúttó) og í því eru 75 herbergi. EFLA var hluti af Spital hópnum sem sá um skipulagsgerð og forhönnun byggingarinnar. Einnig sá EFLA um hönnun gatna og landslagshönnun lóðar, sjá nánar verkefnalýsingu.