Örflæði: framtíðarlausn á samgöngu- og loftslagsvanda borga?

22.03.2021

Blogg
Teikning sem sýnir hjól, hlaupahjól og örvar í allar áttir

Á komandi árum má búast við umtalsverðum breytingum á ferðavenjum og nú þegar má sjá ummerki þess víða. Slíkar breytingar stafa af ýmsum ástæðum, s.s. aukinnar umferðar, aukins ferðatíma, vitundavakningar um mikilvægi vistvænna samgöngulausna til að sporna gegn loftlagsbreytingum og þannig mætti lengi telja.

Örflæði og þróun þess – hvað er deiliörflæði?

Síðastliðið sumar vann EFLA rannsóknarverkefni í samstarfi við deilirafskútuleiguna Hopp, deilihjólaleiguna Donkey Republic og Reykjavíkurborg sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verkefnið hafði það að markmiði að greina áhrif örflæðis á ferðavenjur auk þess að kanna viðhorf notenda og annarra gagnvart þessum nýja ferðamáta. Greiningin var byggð á ferðagögnum frá Hopp og Donkey Republic auk niðurstaðna úr ferðavenju- og viðhorfskönnunar sem framkvæmd var samhliða verkefninu.

Hugtakið örflæði (e. micromobility) á við um farartæki sem eru knúin af líkamlegu afli eða rafmagni og rafmagni og komast alla jafna ekki eins hratt og vélknúin farartæki. Undir þennan flokk falla m.a. hjól, rafhjól, hlaupahjól, rafskútur, hjólabretti og í raun öll farartæki sem eiga heima á hjólastígum samhliða hjólum. Deiliörflæði er hugtak yfir þjónustuaðila sem bjóða upp á að deila þessum farartækjum, og má segja að innleiðing þeirra hafi hafist á markvissan hátt hérlendis á síðari hluta ársins 2019 þegar deilihjól og deilirafskútur komu á markaðinn, má þar nefna Hopp, Zolo og Donkey Republic.

Í lok sumars 2020 hófu svo fleiri deiliþjónustur starfsemi og er áætlað að um 1.100 skútur hafi verið á götum Reykjavíkur síðsumar 2020.1 Leigurnar hafa frá upphafi verið vel nýttar, bæði af íbúum og gestum og á sama tíma hefur örflæðisfarartækjum í einkaeigu fjölgað. Á alþjóðavísu er sömu sögu að segja þó að þróunin þar hafi byrjað nokkrum árum fyrr. Að mörgu er að huga þegar nýr samgöngukostur ryður sér til rúms líkt og örflæði hefur gert, má þarna t.d. nefna utanumhald og öryggi.

Skilgreining og skýring á hugtakinu örflæði og helstu notagildum þess, byggt á skýringarmynd frá ITDP um örflæði.

Mynd 1. Skilgreining og skýring á hugtakinu örflæði og helstu notagildum þess, byggt á skýringarmynd frá ITDP (2) um örflæði.

Tækifæri og áskoranir – að hverju þarf að huga?

Nýjum ferðamátum fylgir fjöldi áskorana og hafa þjóðir og borgir farið margvíslegar leiðir til að halda utan um innleiðingu örflæðis, eins og gerð reglna varðandi innviðanotkun, öryggi og kröfur til notenda. Í flestum tilfellum þurfa þjónustuaðilar að fara í gegnum leyfisferli borgaryfirvalda til að starfrækja þjónustu sína og í því samhengi þekkjast margar leiðir, s.s. takmarkanir á fjölda þjónustuaðila og fjölda farartækja. Í dag gerir Reykjavíkurborg þjónustusamning við þá aðila sem hafa áhuga á að veita borgarbúum slíka þjónustu.

Reykjavíkurborg hefur sett upp kerfi sem lætur eftirspurn ráða fjölda þjónustuaðila sem og fjölda farartækja í umferð.

Ef meðalnýting flotans undir ákveðnu viðmiði, áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að rifta þjónustusamningi í þeim tilgangi að tryggja skynsamlega nýtingu borgarlands. Í þjónustusamningi kemur einnig skýrt fram hvernig þjónustuaðilum ber að viðhalda og reka farartækin og þjónustuna. Hér í kjölfarið er snert á nokkrum atriðum sem geta bæði falið í sér tækifæri og áskoranir m.t.t aðstæðna hérlendis og innleiðingar örflæðis.

  • ÖryggiUmferðaröryggi er ávallt í forgrunni þegar kemur að samgöngum. Mikilvægt er að greina bæði upplifun notenda gagnvart öryggi örflæðis sem og „raunverulegu“ öryggi, þ.e. fjölda slysa og óhappa ásamt einkennum þeirra. Notendur örflæðis teljast til óvarða vegarenda og ber því að skoða sérstaklega umferðaröryggi þeirra m.t.t. annarra ökutækja. Hættur geta myndast þar sem örflæði og bifreiðar nýta sömu innviði, sérstaklega þar sem hraðatakmarkanir eru yfir 30 km/klst.
  • Innviðir
    Á undanförnum árum hefur aukin áhersla verið lögð á greiðar hjólreiðasamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Samhliða þeirri þróun hefur uppbygging hjólreiðainnviða átt sér stað, og getur sú uppbygging verið heppileg til að styðja við innleiðingu örflæðis. Leikreglur örflæðisferðamáta eru þó ekki alltaf skýrar og miðað við núverandi regluverk mega rafskútur t.d. ekki vera á götum líkt og leyfilegt er í mörgum borgum erlendis.
  • Borgarskipulag
    Það felst áskorun en samtímis tækifæri í að samræma aukna notkun örflæðis við núverandi borgarskipulag og framtíðaráform í skipulagsmálum. Alla jafna eru þetta ferðamátar sem eiga best heima á sér skilgreindum stígum, s.s. hjólastígum en geta einnig samræmst skilgreiningu vistgata, þar sem samblöndun ferðmáta er mikil og hraði ekki mikill. Vöxtur örflæðis gerir það að verkum að taka þarf tillit til fleiri ferðamáta en áður á skipulagsstigi.
  • Samþætting ferðamáta
    Gríðarleg tækifæri felast í tengingu örflæðis við almenningssamgöngur en það svæði sem hægt er að ná til á innan við 10 mínútum frá stoppistöðvum er mun stærra þegar ferðast er um á hjóli/hlaupahjóli í stað þess að ganga. Með góðu framboði af deilirafskútum og -hjólum við stoppistöðvar má bjóða upp á vænlegan kost til að brúa bil á milli upphafs og enda ferða á hagkvæman, umhverfisvænan og skilvirkan hátt.
  • Umhverfisáhrif
    Almennt er talið að örflæði hafi jákvæð umhverfisáhrif. Skilgreining örflæðisfarartækja gerir ráð fyrir að þau séu annað hvort knúin áfram af mannafli eða rafmagni og því enginn beinn útblástur gróðurhúsaloftegunda við notkun þeirra. Hversu umhverfisvænn ferðmátinn er fer því eftir orkugjöfum og er Ísland í kjöraðstöðu til að nýta sínu grænu orkugjafa. Mikilvægt er þó að skoða áhrifin heildstætt, þ.e. að taka tillit til framleiðslu farartækja, líftíma þeirra og þjónustu þeirra.
  • Veður
    Þar sem rafskútur, rafhjól og hjól eru alla jafna ferðamátar sem verja notendur illa fyrir veðri getur veðurfar haft áhrif á notkun þeirra. Rannsóknir hafa sýnt sterk tengsl milli notkunar hjólreiða og veðurs. Samkvæmt erlendum rannsóknum virðist veðurfar hafa minni áhrif á notendur deilirafskúta en deilihjól. Rafvæðing fararmátana getur líka haft sitt að segja og hefur rannsókn hér á landi varpað ljósi á það að veðurfar (vindur, rigning, lágt hitastig) er minni hindrun fyrir þá sem eru á rafhjóli samanborið við venjuleg hjól.3
  • Skemmdaverk og vanræksla
    Skemmdaverk á farartækjum og þjófnaður hefur verið vandamál víðs vegar um heim. Auk þess getur umgengni og notkun deiliþjónusta valdið ágreiningi og núningi meðal borgarbúa, t.d. þegar farartækjum er lagt á óviðunandi hátt. Í fyrstu skrefum þjónustunnar hérlendis var sú umræða áberandi.
  • Regluverk
    Örflæðisfarartæki falla undir nokkra flokka í gildandi umferðarlögum, þ.e. bæði reiðhjól og létt bifhjól. Ljóst er að hérlendis sem og víða erlendis hefur regluverk ekki verið að fullu aðlagað að rekstri og notkun örflæðis. Mikilvægt er að yfirvöld geri sitt til þess að styðja við og tryggja að örflæði þjóni borgarbúum á sem hagkvæmastan hátt án þess að hafa neikvæða fylgikvilla. Ólíkt því sem þekkist erlendis, þá leyfa umferðarlögin hér á landi ekki akstur á rafskútum á götum og þyrfti því að skoða betur áhrif þess á vænleika þessara ferðamáta.
Hopp rafskúta við Tjörnina í miðbæ Reykjavíkur

Rafskúta frá Hopp. Mynd: Hopp.

Á hvaða gögnum byggist rannsóknin?

Við rannsóknina var stuðst við gagnasöfn frá Hopp og Donkey Republic. Í heildina náðu gögn Hopp til yfir 420.000 ferða sem farnar voru af meira en 40 þúsund notendum frá september 2019 til ágúst 2020 en á þessu tímabili voru aðeins deilirafskúturnar Hopp og Zolo á markaðnum. Gögn Donkey Republic voru mun umfangsminni, bæði vegna minni notkunar og forgreiningu þeirra. Hér í framhaldi er að mestu stuðst við niðurstöður úr greiningu á gögnum Hopp en sambærilegar greiningar fyrir delihjólaleiguna Donkey Republic má finna í lokaskýrslu verkefnisins. Í verkefninu var einnig framkvæmd ferðavenju- og viðhorfskönnun sem kynnt var á samfélagsmiðlum og send á netföng nemenda við Háskóla Íslands og notenda Donkey Republic. Sérstök áhersla var lögð á að fá svar frá notendum sem höfðu þegar nýtt sér deiliþjónustuna.

Þátttakendur voru 804 talsins og allir þátttakendur voru sjálfboðaliðar. Út frá ferðagögnum og niðurstöðum ferðavenjukönnunar var lögð áhersla á að greina helstu einkenni ferða sem farnar voru með deiliþjónustu Hopp og Donkey Republic á fyrrgreindu tímabili. Auk þess var litið á þróun starfseminnar, fjölda ferða og nýtingu hvers farartækis.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins hoppuðu á Hopp

Þegar kemur að notendahópi deiliörflæðis virðist það, enn sem komið, vera vinsælla meðal einstaklinga á bilinu 18-44 ára og eru fleiri karlmenn en konur sem nýta deiliörflæðisfarartæki. Þó er munurinn misjafn eftir farartækjum og er t.d. minni kynjamunur á notkun rafskúta en rafhjólum. Sjá má að fjöldi ferða óx gríðarlega á tímabilinu og náði að hámarki um mitt sumar 2020. Má því segja að viðtökur Hopp hafi verið gríðarlega góðar.

Að auki er áhugavert að líta til þeirrar aukningar sem var í fjölda ferða eftir að Hopp stækkaði þjónustusvæði sitt og fjölgaði rafskútum í lok apríl 2020. Ef litið er til fjölda ferða á hverja rafskútu sýnir greiningin að aukinn fjöldi rafskúta og stækkun þjónustusvæðisins hafði ekki umtalsverð áhrif á nýtingu hvers farartækis. Gefur það til kynna að mikil eftirspurn hafi verið eftir fleiri farartækjum á þeim tímapunkti.

Graf: Hlutfall fjölda ferða á dag með deilirafskútum Hopp frá september 2019 til ágúst 2020.

Mynd 2. Hlutfall fjölda ferða á dag með deilirafskútum Hopp frá september 2019 til ágúst 2020.

Deilisamgöngur í sinni skýrustu mynd

Um 8 notendur á hverja deilirafskútu og yfir 10 ferðir á dag

Ólíkt þegar farartæki eru í einkaeigu, hvort sem um er að ræða bifreiðar, reiðhjól eða rafskútur, þá eru þau aðeins notuð af eigendum þess. Því var afar áhugavert að rannsaka hversu margir notendur eru að nýta hverja deilirafskútu. Þegar gögn voru greind yfir sumarið 2020 þá kom í ljós að meðaltali voru farnar yfir 10 ferðir á hverja rafskútu á dag og meðalfjöldi notenda á hverja rafskútu um 8 á degi hverjum. Verður það að teljast ansi góð nýting á farartækjum og sýnir hversu mikið býr í deilisamgöngum.

Flestar ferðir undir 20 mínútur

En í hvernig ferðir er verið að nýta deilirafskúturnar? Þegar litið er til einkenna þeirra ferða sem voru farnar, þá voru þær gjarnan nýttar í styttri ferðir sem er í samræmi við niðurstöður erlendis og almennra væntinga til örflæðis og þá sér í lagi rafskúta. Greiningar á ferðum innan borga erlendis hafa sýnt fram á að stór hluti ferðanna eru stuttar og gefur það vísbendingu um að rafskútur henta sérstaklega vel fyrir styttri ferðir. Ef litið er til tímalengdar ferða voru um 90% þeirra styttri en 20 mínútur. Einnig var áhugavert að sjá að almennt var ekki mikill munur á vega- og tímalengd ferða eftir að þjónustusvæði Hopp var stækkað sem gefur til kynna að upphafs- og endastaðir einskorðast ekki við miðbæ Reykjavíkur.

Marktækan mun má sjá á notkuninni á virkum dögum og um helgar. Meiri notkun á morgnana á virkum dögum gefur til kynna að rafskúturnar séu nýttar í ferðir til og frá skóla og vinnu. Þetta er í samræmi við niðurstöður ferðavenjukönnunar sem framkvæmd var auk niðurstaðna úr könnun sem Gallup gerði fyrir Reykjavíkurborg um rafskútur í lok árs 2020.4

Um helgar má tengja notkun rafskúta fremur við afþreyingu.

Línurit: Dreifing ferða deilirafskúta Hopp eftir vegalengd.

Mynd 3 Dreifing ferða deilirafskúta Hopp eftir vegalengd.

Tilgangur ferða – hvaða þörfum mætir örflæði?

Áhugavert er að bera notkunina yfir daginn við niðurstöður ferðavenjukönnunarinnar sem spurði notendur um þrjár algengustu ferðir sem þeir færu með deilirafskútum. Algengustu ferðirnar voru vegna skemmtanalífs, afþreyingar og heimsóknar á veitingastaði, og þar á eftir koma ferðir til og frá vinnu. Í niðurstöðum könnunar Gallup má sjá að rúmlega helmingur svarenda segir eina af þremur algengustu ferðum sínum vera til og frá vinnu en þar á eftir koma skemmtistaðir og veitingastaðir, almenn erindi og ferðir til ættingja og vina. Ljóst er að farartækin nýtast bæði í afþreyingartilgangi en auk þess til að sinna brýnni erindum, s.s. að komast til og frá vinnu og skóla.

Línurit: Þrjár algengust ferðir sem farnar eru með deilirafskútum- og hjólum samkvæmt ferðavenjukönnun

Mynd 4 Þrjár algengust ferðir sem farnar eru með deilirafskútum- og hjólum samkvæmt ferðavenjukönnun.

Dreifing ferða rafskúta innan þjónustusvæðis Hopp, byggt á ferðagögnum í júlí 2020.

Mynd 5 Dreifing ferða rafskúta innan þjónustusvæðis Hopp, byggt á ferðagögnum í júlí 2020.

Innviðir og notkun – hvar eru flestar ferðir farnar?

Þegar litið er til dreifingu ferða má sjá að þær eru flestar farnar í og við miðbæ Reykjavíkur. Hafa ber í huga að þjónustusvæðið takmarkaðist við ákveðin svæði innan Reykjavíkur þegar greiningin var unnin. Að sama skapi er nytsamlegt að greina staðsetningu ferða í samanburði við megin stígakerfi höfuðborgasvæðisins og geta slíkar greiningar nýst til framtíðar varðandi ákvarðanir um innviðauppbyggingu. Almennt má sjá mikinn þéttleika ferða eftir stofn- og tengistígakerfi höfuðborgarsvæðisins.

Þegar litið er til viðhorfs notenda gangvart innviðum og hvaða innviði þeir helst vilja nýta sér má sjá að hjólastígar og hjólareinar eru í sérflokki. Niðurstöður rannsóknarinnar eru í samræmi við niðurstöður könnunar Gallup þar sem yfir 60% svarenda vildu helst nýta slíka stíga en aðeins 30% gera það í dag. Flestar ferðir eru farnar á göngustígum og gangstéttum sem getur óhjákvæmilega myndað togstreitu á milli gangandi vegfarenda og notendur örflæðisfarartækja.

Niðurstöður úr ferðavenju- og viðhorfskönnun varðandi notkun rafskúta eftir gerð innviða og hvaða innviðir notendur telja að henti best fyrir rafskútur.

Mynd 6 Niðurstöður úr ferðavenju- og viðhorfskönnun varðandi notkun rafskúta eftir gerð innviða og hvaða innviðir notendur telja að henti best fyrir rafskútur.

Breyttar ferðavenjur – deiliörflæði lofar góðu

Hugmyndafræði örflæðis er að bjóða upp á raunhæfan valkost til samgangna í borgum. Í rannsókninni var lagt upp með að skoða hvers konar ferðir örflæði væri að leysa af og enn fremur hvort farartækin væru einfaldlega að skapa ferðir (þ.e. að fjölga ferðum). Til þess að samræmast markmiðum yfirvalda um aukna hlutdeild vistvænna ferðamáta væri ákjósanlegt að örflæði kæmi í stað ferða sem almennt eru farnar með einkabílum.

Niðurstöður gáfu til að kynna að 40% töldu sig fara færri ferðir á einkabíl eftir að þeir fengu aðgang að deiliþjónustu örflæðis og voru niðurstöður könnunar Gallup og Reykjavíkurborgar sambærilegar. Að sama skapi töldu 30-50% svarenda sig fara færri ferðir fótgangandi, hjólandi eða með strætó. Gefa því niðurstöðurnar von um að mögulegt sé að fækka ferðum sem farnar eru með einkabíl með því að styðja enn frekar við innleiðingu örflæðis en viðbúið er að örflæði hafi um leið áhrif á aðra vistvæna ferðamáta.

Aðgengi að deiliþjónustu örflæðis og áhrif á fjölda ferða sem farnar eru með öðrum ferðamátum, byggt á ferðavenju- og viðhorfskönnun verkefnisins

Mynd 7 Aðgengi að deiliþjónustu örflæðis og áhrif á fjölda ferða sem farnar eru með öðrum ferðamátum, byggt á ferðavenju- og viðhorfskönnun verkefnisins.

Framhaldið – mun örflæði halda áfram að vaxa?

Þó aðeins örfáir mánuðir eru síðan rannsóknin var unnin hefur margt breyst á sviði örflæðis hérlendis og erlendis. Fjöldi deiliþjónusta hafa komið inn á markaðinn hér á landi og farartækjum í einkaeigu hefur að sama skapi fjölgað. Nú einskorðast þjónustusvæði deiliþjónusta örflæðis ekki við hluta Reykjavíkur heldur allt höfuðborgarsvæðið og má gera ráð fyrir að þróun þess sé hvergi nærri lokið og má búast við því að fjöldi ferða á hverja rafskútu geti eða hafi minnkað með tilkomu fleiri aðila á markaðinn.

Samhliða því verður áhugavert og mikilvægt að greina notkun ferðamáta örflæðis með það að markmiði að styðja við þróunina t.a.m. varðandi innviðauppbyggingu og samþættingu við almenningssamgöngur. Mikilvægt er að sveitarfélög og aðrar stofnanir fylgist vel með og stuðli að jákvæðri þróun þess.

Rannsóknin, sem er sú fyrsta sinnar tegundar hérlendis, gefur þó góða mynd af notkun örflæðis eins og staðan er í dag og möguleikum þess hérlendis. Í skýrslunni má finna mun ítarlegri umfjöllun um örflæði, frekari greiningu ferðagagna og niðurstaðna úr ferðavenju- og viðhorfskönnun.

Viltu vita meira?

EFLA hefur til margra ára sinnt ráðgjöf á sviði samgangna og býður fram heildræna og þverfaglega þekkingu til að takast á við slík verkefni.