Orkuskipti framundan í Sundahöfn

18.10.2021

Fréttir
A busy port area with shipping containers and cars

Hafnarsvæði Eimskips við Sundahöfn.

Rafvæðing hafna er á fullu stími og nú styttist í að flutningsskip Eimskips verði landtengd við rafmagn. EFLA hefur unnið þétt við hlið Eimskips til að verkefnið verði að veruleika.

Orkuskipti framundan í Sundahöfn

Áætlað er að með tilkomu landtengingarinnar á skipaflota Eimskips dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur 160 þúsund lítrum af olíu á ári, olíu sem að öðrum kosti hefði verið brennd við bryggjuna. EFLA hefur haft umsjón með verkefninu, annast hönnun þess, samningagerð og skipulagningu frá fyrstu stigum.

Verkefnið byggir á grunni viljayfirlýsingar sem undirrituð var af fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Reykjavíkurborgar, Faxaflóahafna, Veitna, Eimskipa og Samskipa í maí í fyrra. Þessir aðilar lögðu fjármuni til verkefnisins með það fyrir augum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Óhætt er að segja að um tímamót sé að ræða þegar kemur að vöruflutningum íslenskra flutningaskipa. Rafvæðing hafna er hluti af bæði loftslagsáætlun stjórnvalda og Reykjavíkurborgar en þar er markmiðið að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Skýrt markmið um lægra kolefnisspor

Fyrst um sinn munu tvö nýjustu flutningaskip Eimskips, Brúarfoss og Dettifoss verða útbúin til að geta notað háspennutenginguna. Þau munu þar með einnig geta notað sambærilegar tengingar á siglingaleið sinni í Evrópu. Tilkoma tengingarinnar mun styðja við markmið Eimskips um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir árið 2030. Kolefnisspor á hvern fluttan gám fyrirtækisins hefur þegar minnkað um 14,7% frá árinu 2015.

Lykilhlutverk í rafvæðingu hafna

Þess má geta að EFLA hefur víðar komið að rafvæðingu stórra skipa í höfnum landsins. Þar má nefna landtengingu farþegaferjanna Herjólfs og Smyril Line auk glænýrrar landtengingar uppsjávarskipa Síldarvinnslunnar á Norðfirði sem tekin var í notkun í byrjun september. Fleiri sambærileg verkefni eru í farvatninu er því óhætt að fullyrða að EFLA gegni lykilhlutverki þegar kemur að rafvæðingu hafna landsins.

EFLA óskar Eimskip til hamingju með að hafa skrifað undir samning við norska fyrirtækið Blueday Technology um kaup á búnaði til uppsetningar háspennulandtengingar fyrir flutningaskip í Sundahöfn. Um er að ræða 11 kV háspennutengingu (2,0 MVA / 60 Hz), þá fyrstu sem sett er upp fyrir skip á Íslandi.