Öryggi að leiðarljósi í ferðaþjónustu

09.11.2015

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Böðvar Tómasson, fagstjóri bruna- og öryggissviðs, flutti erindi um skipulag í öryggismálum á Ferðamálaþingi sem haldið var í Hofi á Akureyri 28. október sl.

Öryggi að leiðarljósi í ferðaþjónustu

Böðvar Tómasson, fagstjóri bruna- og öryggissviðs, flutti erindi um skipulag í öryggismálum á Ferðamálaþingi sem haldið var í Hofi á Akureyri 28. október sl. Alls sóttu um 250 manns þingið. Yfirskrift þingsins að þessu sinni var "Stefnumótun svæða - stjórnun og skipulag" og hófst það á ávarpi ráðherra ferðamála, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur.

Erindi Böðvars "Öryggi í skipulagi og áhættustýring svæða" fjallaði um það hvernig nauðsynlegt væri að samræma markmið um áætlanir í öryggismálum þannig að til sé skýr stefna í málaflokknum fyrir landið í heild sinni sem einstaka svæði geta síðan nýtt og sniðið að sínum þörfum.

Böðvar nefndi í því samhengi að nú þegar sé til ákveðið kerfi fyrir ferðaþjónustuaðila þ.e. Vakinn, sem EFLA sá um að uppfæra 2013 og aðstoðar ferðaþjónustuaðila við að innleiða í starfsemi sína. Vakinn miðar að því að ferðaþjónustuaðilar nýti sér vel skilgreinda aðferðarfræði til að auka öryggi og minnka áhættur í starfssemi sinni. Böðvar sagði að nauðsynlegt væri að skilgreina markmið og innleiða í kjölfarið svipað kerfi á ferðamannasvæðum.

Í stefnu í öryggismálum til 2015 var markmiðið að allir helstu ferðamannastaðir hefðu öryggisáætlun, hins vegar komust þessi verkefni ekki til framkvæmda en í erindi sínu sagði Böðvar nauðsynlegt að grípa inn í og setja raunhæf markmið varðandi öryggi á öllum stigum. Skilgreina þurfi þessi markmið og samræma við þau sem sett eru fram í Vegvísi í Ferðaþjónustu sem gefinn var út af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Samtökum ferðaþjónustunnar við stofnun Stjórnstöðvar ferðamála þann 6. október sl.

Upptökuna í heild sinni má finna hér: https://vimeo.com/144606255

Nánari upplýsingar um áhættustýringu og öryggismál má finna hér.