Raforkuverð á Íslandi

28.05.2024

Blogg
Borg séð úr lofti að kvöldi til.

Nú í maí gaf EFLA út skýrsluna Raforkuverð á Íslandi. Í henni er að finna hafsjó af fróðleik um raforkuverð frá því að raforkumarkaður var gefinn frjáls í ársbyrjun 2005.

Þróun raforkuverðs

Nú í maí gaf EFLA út skýrsluna Raforkuverð á Íslandi. Í henni er að finna hafsjó af fróðleik um raforkuverð frá því að raforkumarkaður var gefinn frjáls í ársbyrjun 2005. Í skýrslunni er að finna gögn um orkuverð til fyrirtækja og heimila, farið er í verðmyndun á raforkumarkaði, þ.m.t. heildsölumarkað, flutning og dreifingu, upprunavottorð og samanburð við önnur lönd.

Síðustu ár hefur þrengst um á raforkumarkaði. Þess gætir í verði á raforku í heildsölu Landsvirkjunar. En þrátt fyrir það hefur raforkuverð á smásölumarkaði, þ.e. til heimila og fyrirtækja sem ekki flokkast sem stórnotendur, helst til lækkað. Hugsanlega má rekja þessa þróun til aukinnar samkeppni á þeim markaði síðustu árin.

Töluverðar breytingar hafa orðið á raforkumarkaðinum undanfarið og enn fleiri breytingar eru að bresta á. Upprunavottorð raforku, sem lengi vel voru því sem næst verðlaus, urðu afar verðmæt á síðasta ári, en hafa lækkað í verði síðan. Kauphallir með raforku eru rétt að hefja starfsemi um þessar mundir, en áhrifa þeirra á raforkuverð er ekki enn farið að gæta. Sömuleiðis gæti snjallmælavæðing haft áhrif á raforkuverð þegar frá líður.

Í skýrslunni er raforkuverði skipt niður eftir verðþáttum, þ.e. söluverði raforku, flutning og dreifingu og opinberum gjöldum. Tekið er tillit til niðurgreiðslna þegar þar á við. Reiknuð eru nokkur dæmi um mismunandi notanda:

  • Heimili án rafhitunar með 4,5 MWh notkun á ári (<6 kW aflþörf)
  • Rafhitað heimili með 30 MWh notkun á ári (<8 kW aflþörf)
  • Lítið þjónustufyrirtæki með 150 MWh notkun á ári (27 kW aflþörf)
  • Lítið iðnaðarfyrirtæki með 500 MWh notkun á ári (111 kW aflþörf)
  • Stórt iðnaðarfyrirtæki með 3.000 MWh notkun á ári (625 kW aflþörf)

Raforkuverð til heimila eru uppreiknuð á verðlagi í febrúar 2024 skv. neysluverðsvísitölu Hagstofunnar, en það er gert til að auðvelda samanburð verðlags raforku innan þess tímabils sem skýrslan nær til.

Hér verður tæpt á nokkrum atriðum úr skýrslunni þar sem fjallað er um raforkuverð til heimila. Skýrslan er til sölu, og áhugasamir geta haft samband við orkuverd@efla.is.

Raforkukostnaður heimila án rafhitunar

Raforkuverð til heimila er annars vegar kostnaður vegna dreifingar og flutnings raforku sem greiðist til viðkomandi dreifiveitu og hins vegar kaup raforku af söluaðila sem greiðist til viðkomandi söluaðila. Viðskiptavinurinn, heimilið, getur valið sér söluaðila. Dreifiveita hefur sérleyfisstarfsemi á sínu veitusvæði og viðskiptavinurinn hefur ekkert val þar um.

Í skýrslunni er þróun raforkuverðs til heimila sýnt sem þróun á árlegum kostnaði notandans m.v. þá gjaldskrá sem er í gildi hverju sinni. Þannig er uppgefið verð fyrir febrúar 2024 kostnaður notandans í eitt ár miðað við gjaldskrána í febrúar 2024. Tekið er tillit til allra gjalda og niðurgreiðslna.

Hér á eftir sést annars vegar kostnaður heimilis án rafhitunar vegna flutnings og dreifingar, og hins vegar kostnaður vegna raforkuöflunar.

Á landinu eru fimm dreifiveitur raforku með samtals sjö gjaldskrársvæði. Kostnaður heimilis vegna flutnings og dreifingar raforku fer eftir því á hvaða gjaldskrársvæði heimilið er. Á mynd 1 má sjá árlegan kostnað heimilisins án rafhitunar vegna flutnings og dreifingar raforku á hverju gjaldskrársvæði fyrir sig. Sjá má að kostnaður vegna flutnings og dreifingu í þéttbýli hefur haldist nokkuð stöðugur frá 2005 en hækkað lítillega í dreifbýli.

Á mynd 2 má svo sjá þróun árlegs kostnaðar dæmigerðs heimilis án rafhitunar við raforkukaup miðað við listaverð hvers mánaðar fyrir þessa átta smásala.

Á landinu starfa nú níu smásalar raforku en fjallað er um átta þeirra í skýrslunni. Sá níundi, Atlantsorka, er nýr á markaði.

Raforkumarkaður er frjáls á Íslandi sem þýðir að hver notandi getur valið sinn raforkusala, ólíkt dreifingu raforku, en dreifiveita hvers notanda ákvarðast af afhendingarstað raforkunnar.

Graf.

Mynd 1 Þróun árlegs kostnaðar heimilis án rafhitunar við flutning og dreifingu raforku. Tekið er tillit til nettó skatta að frádregnum niðurgreiðslum og dreifbýlisframlagi. Miðað er við heimili sem notar 4,5 MWh á ári til almennrar heimilisnotkunar. Kostnaður er framreiknaður til verðlags í febrúar 2024.

Graf.

Mynd 2 Þróun árlegs kostnaðar heimilis án rafhitunar við orkukaup. Tekið er tillit til nettó skatta að frádregnum endurgreiðslum. Miðað er við heimili sem notar 4,5 MWh af raforku á ári. Kostnaður er framreiknaður til verðlags í febrúar 2024.

Raforkuverð til rafhitaðra heimila

Myndir 3 og 4 eru sambærilegar myndum 1 og 2 nema að þar er sýndur kostnaður heimilis með rafhitun.

Á mynd 3 má sjá að kostnaður vegna flutnings og dreifingar rafhitaðs heimilis er bæði hærri, vegna meiri notkunar, og óstöðugri en kostnaður heimilis án rafhitunar á mynd 1. Þennan óstöðugleika má einna helst rekja til breytinga á niðurgreiðslum en ríkissjóður niðurgreiðir flutnings- og dreifigjöld vegna beinnar rafhitunar íbúðarhúsnæðis og hafa niðurgreiðslurnar tekið töluverðum breytingum frá 2005. Hugmynd um umfang niðurgreiðslanna fæst með að skoða þróun kostnaðar við flutning og dreifingu á veitusvæðum Norðurorku og Veitna en árið 2005 voru ekki veittar niðurgreiðslur vegna húsitunar á þessum svæðum.

Á mynd 4 má sjá að ólíkt kostnaði við flutning og dreifingu, þá fylgir kostnaður vegna raforkuöflunar rafhitaðra heimila svipaðri þróun og kostnaður heimilis án rafhitunar. Það má rekja til þess að einu niðurgreiðslur af raforkuöflun rafhitaðra heimila er afsláttur af virðisaukaskatti og hefur sá afsláttur verið stöðugri en niðurgreiðslur vegna flutnings og dreifingar á tímabilinu.

Graf.

Mynd 3 Þróun árlegs kostnaðar rafhitaðs heimilis við flutning og dreifingu raforku. Tekið er tillit til nettó skatta að frádregnum niðurgreiðslum og dreifbýlisframlagi. Miðað er við heimili sem notar 30 MWh á ári þar sem 85% af notkuninni fer til húshitunnar. Kostnaður er framreiknaður til verðlags í febrúar 2024.

Graf.

Mynd 4 Þróun árlegs kostnaðar rafhitaðs heimilis við orkukaup. Tekið er tillit til nettó skatta að frádregnum niðurgreiðslum og dreifbýlisframlagi. Miðað er við heimili sem notar 30 MWh á ári þar sem 85% af notkuninni fer til húshitunnar. Kostnaður er framreiknaður til verðlags í febrúar 2024.

Dæmi um þróun kostnaðar á gjaldskrársvæði dreifiveitu

Í skýrslunni eru verðin einnig skoðuð ítarlega fyrir hvert gjaldskrársvæði fyrir sig. Sem dæmi um það eru myndir 5 og 6, en þær sýna þróun verðs fyrir flutning og dreifingu á tveimur gjaldskrársvæðum Orkubús Vestjarða fyrir rafhitað heimili. Mynd 5 sýnir þróunina í þéttbýli og mynd 6 í dreifbýli. Svarta línan á myndunum sýnir heildarsöluverð dreifiveitunnar fyrir flutning og dreifingu, en rauða línan sýnir kostnað notandans sem er heildarverðið að frádregnum niðurgreiðslum, þ.m.t. dreifbýlisframlagi.

Graf.

Mynd 5 Rafhitað heimili á veitusvæði Orkubús Vestfjarða í þéttbýli, flutningur og dreifing. Miðað er við heimili sem notar 30 MWh af raforku á ári þar sem 85% orkunnar fara til húshitunar. Myndin sýnir árlegan kostnað notanda og heildarsöluverð veitufyrirtækis. Tölur eru framreiknaðar til verðlags í febrúar 2024.

Graf.

Mynd 6 Rafhitað heimili á veitusvæði Orkubús Vestfjarða í dreifbýli, flutningur og dreifing. Miðað er við heimili sem notar 30 MWh af raforku á ári þar sem 85% orkunnar fara til húshitunar. Myndin sýnir árlegan kostnað notanda og heildarsöluverð veitufyrirtækis. Tölur eru framreiknaðar til verðlags í febrúar 2024.

Samanburður við önnur lönd

Mynd 7 sýnir samanburð á heildarraforkuverði til heimila á Íslandi miðað við önnur lönd í Evrópu. Neikvæðar tölur tákna niðurgreiðslur og ívilnanir.

Eins og sést á myndinni þá er raforkuverð til heimila á Íslandi nokkuð nálægt meðallagi í Evrópu. Eðlilegast er þó að bera saman raforkuverð við þau lönd sem hafa hæst hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa, þ.e. lönd í Norður- og Mið-Evrópu. Í þeim samanburði er raforkuverð íslenskra heimila lægst.

Graf.

Mynd 7 Raforkuverð með flutningi og dreifingu ásamt sköttum og gjöldum til heimila í Evrópu á seinni helming ársins 2023 þar sem gert er ráð fyrir 1,0 til 2,499 MWh notkun á ári.