Rafrænar upplýsingar um vegabréf

13.01.2023

Fréttir
An Icelandic passport and personal identification shown partially

Teymi hugbúnaðarlausna á iðnaðarsviði EFLU tók þátt í að þróa lausn sem gerir landsmönnum kleift að nálgast upplýsingar um vegabréfið sitt og barna í sinni forsjá. Lausnin má finna undir skírteini inni á „mínum síðum“ á Island.is. Hlutverk EFLU er að halda utan um Skilríkjaskrá og miðla upplýsingum til vefs island.is og taka við skráningum þaðan.

Rafrænar upplýsingar um vegabréf

Verkefnið var unnið í samstarfi við Þjóðskrá, Útlendingastofnun, dómsmálaráðuneytið og Stafrænt Ísland auk Advania og Hugsmiðjunnar. Þessari nýju lausn er ætlað að auðvelda fólki að nálgast upplýsingar úr sínu vegabréfi eða barna í sinni forsjá t.d. þegar á að bóka á flug, en fólk þarf þó áfram að vera með vegabréf sitt meðferðis á ferðalögum erlendis.

Þetta er hluti af þróun EFLU á Skilríkjaskrá Þjóðskrár Íslands sem heldur utan um öll útgefin vegabréf og einnig dvalarleyfiskort fyrir Útlendingastofnun, en ný rafræn dvalarleyfiskort fyrir Útlendingastofnun komu út 2021. Skilríkjaskrá er, auk Þjóðskrár, einn mikilvægasti gagnagrunnur og stjórnsýsluverkfæri Þjóðskrár. Ýmsar þjónustur hafa verið þróaðar í tengslum við Skilríkjaskrá, t.d. til að láta umsækjendur vita um stöðu umsóknar um vegabréf, hvenær vegabréf hefur verið gefið út og tengingar við ýmis önnur stjórnsýslukerfi.