Rafvæðing Sundahafnar sparar 240 tonn af olíu

15.12.2022

Fréttir
A man in high visibility vest and hard hat observing red thick cords in an industrial site

Starfsfólk EFLU hafði yfirumsjón með landtengingu flutningaskipa Eimskips við Sundahöfn sem var formlega tekin í notkun í gær. Þá var samið við norska fyrirtækið Blueday Technology AS til að sjá um fullnaðarhönnun og smíði á landtengingarbúnaði.

Rafvæðing Sundahafnar sparar 240 tonn af olíu

Hlutverk EFLU fólst í skilgreiningu á verkefninu, hönnun, útboði og vali á búnaði og umsjón með verksamningum þeirra verktaka sem komu að verkefninu. EFLA annaðist einnig verkeftirlit og úttektir fyrir hönd verkkaupa.

Með þessu verkefni er unnið er að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og loftmengandi efna frá flutningastarfsemi og því tímamótaverkefni á sviði loftlagsmála á Íslandi. Nú er hægt að landtengja stærstu skip Eimskips við rafmagn þegar þau eru í Sundahöfn í stað þess að keyra ljósavélar sem ganga fyrir olíu. Olíunotkun mun minnka um allt að 240 tonn á ári sem jafngildir útblæstri á um 750 tonnum af koltvísýringi (CO2).

Verkefnið er samstarfsverkefni Eimskips, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, Faxaflóahafna og Veitna. Viljayfirlýsing um uppbyggingu og rekstur landtenginga fyrir skip í Sundahöfn var undirrituð í maí 2020.

Starfsfólk EFLU óskar Eimskipum til hamingju með þennan áfanga og þakkar fyrir gott samstarf.

A top-down view of an industrial pit with yellow safety barriers containing machinery and cords