Rakaskemmdir og gluggaísetningar umfjöllunarefni

12.02.2020

Fréttir
Five individuals standing with a smile on their faces

Teymið sem kom að verkefnunum. Frá vinstri: Sverrir Jóhannesson, Bergþór Ingi Sigurðsson, Arnar Þór Hrólfsson, Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir og Eiríkur Ástvald Magnússon.

Sérfræðingar EFLU á sviði fasteignaviðhalds voru leiðbeinendur í tveimur lokaverkefnum nemenda í byggingartæknifræði við HR. Annað verkefnið rannsakaði orsakir rakaskemmda í íbúðarhúsnæði og hitt fjallaði um gluggaísetningar hérlendis.

Þeir Arnar Þór Hrólfsson og Bergþór Ingi Sigurðsson, nemar í byggingartæknifræði Háskólans í Reykjavík, unnu lokaverkefni sín í byggingartæknifræði hjá EFLU þar sem sérfræðingar fyrirtækisins voru í hlutverki leiðbeinanda og veittu stuðning í verkefnunum.

Rofinn veðurhjúpur við glugga og hurðir

Arnar Þór Hrólfsson vann verkefnið sitt undir leiðsögn byggingareðlisfræðingsins Eiríks Ástvalds Magnússonar og Sylgju Daggar Sigurjónsdóttur líffræðings sem nefnist: Rakaskemmdir í íslensku íbúðarhúnæði: Orsakir rakaskemmda og afleiðingar þeirra - Samantekt á skoðunarskýrslum.

EFLA veitir húseigendum þá þjónustu að koma í heimilisskoðun sem miðar að því að rakaskima heimili, leita orsaka og koma með tillögur að lausnum. Starfsfólk sviðsins hefur skoðað nokkur þúsund eignir og nær úrvinnsla verkefnisins til 150 eigna. Skoðunarskýrslur voru ígrundaðar vel og kannaðar orsakir og afleiðingar. Helstu niðurstöður eru þær að í hverri eign eru að meðaltali fleiri en ein orsök rakaskemmda og algengasta orsökin er þar sem veðurhjúpur er rofinn með gluggum og hurðum, ástand veðurhjúps og síðan vatnsvörn baðherbergja við sturtur og baðkör.

Gluggaísetningar hérlendis þyrfti að taka til endurskoðunar

Bergþór Ingi Sigurðsson vann síðan lokaverkefni þar sem hann skoðaði gluggaísetningar á Íslandi, regluverk, prófanir og leiðbeiningar. Leiðbeinandi hans er einn helsti sérfræðingur EFLU í viðhaldsmálum Sverrir Jóhannesson. Helstu niðurstöður Bergþórs eru að leiðarvísum, reglugerðarkröfum og kennslu við ísetningu glugga virðist vera ábótavant á Íslandi. Það þurfi að endurskoða alla ferla allt frá innflytjendum til notenda glugga í húsnæði til þess að tryggja megi gæði endingu og takmarka leka.

Nauðsynlegt að miðla þekkingunni og bregðast við

Sylgja Dögg segir mikla þörf á frekari rannsóknum á þessu sviði. "Þessi tvö verkefni hafa mikið samfélagslegt gildi þar sem helstu áskoranir í dag eru að við viljum betri byggingar sem leka ekki, þekkja hvar við eigum helst að bregðast við og læra af mistökum. Niðurstöðurnar gefa okkur tækifæri til þess að bregðast við með því að endurskoða reglugerðarkröfur og leiðarvísa og kennslu til fagaðila. Mikilvægt er að einnig að átta sig á því hvar við þurfum helst að leggja áherslu á aðgerðir til þess að takmarkinu verði náð, betri byggingum."

Sérfræðingar EFLU, ásamt Bergþóri og Arnari, hyggjast kynna niðurstöðurnar betur á næstunni og fá fram umræður um málefnið.

Sjá einnig umfjöllun Vísis um málið.