Sæmundur ráðinn framkvæmdastjóri EFLU

11.03.2021

Fréttir
A man in black suit and glasses posing with a smile

Sæmundur Sæmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri EFLU.

Sæmundur Sæmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri EFLU og tekur hann við af Guðmundi Þorbjörnssyni í lok apríl næstkomandi. Guðmundur hefur ákveðið að stíga til hliðar og taka að sér ný hlutverk hjá EFLU.

Sæmundur Sæmundsson

Sæmundur gegndi stöðu forstjóra Borgunar frá 2018-2020, var framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Sjóvar 2011-2017 og þar áður forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Teris 1998-2011. Jafnframt hefur Sæmundur setið í stjórn Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja, stjórnarformaður Auðkennis, í stjórn Aur app ehf og í varastjórn Reiknistofu bankanna.

Sæmundur er tölvunarfræðingur að mennt frá University of Texas í Bandaríkjunum og hefur auk þess bætt við sig menntun á sviði stjórnunar. Hann er kvæntur Margréti V. Kristjánsdóttur, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og eiga þau þrjá syni.

Í EFLU samstæðunni starfa um 400 sérfræðingar með fjölbreytta þekkingu og reynslu. Meginstarfsemi EFLU er á Íslandi, með höfuðstöðvar í Reykjavík og öflugar starfsstöðvar víða um land. Að auki starfrækir EFLA dóttur- og hlutdeildarfélög á Íslandi og í Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi, Skotlandi og Tyrklandi.

Stjórn EFLU þakkar Guðmundi fyrir langt og farsælt starf. Guðmundur hefur leitt EFLU í gegnum miklar breytingar með mjög góðum árangri en frá stofnun EFLU árið 2008 hefur fyrirtækið tvöfaldast að stærð, bæði hvað varðar fjölda starfsmanna og umfang rekstrar. EFLA er eitt fárra fyrirtækja á Íslandi sem hefur uppfyllt viðmið CreditInfo um framúrskarandi rekstur frá upphafi. EFLA hefur verið brautryðjandi á fjölbreyttum sviðum, hlotið fjölmargar viðurkenningar og náð árangri bæði á Íslandi og erlendis.