Samfélagssjóður EFLU styrkir sjö verkefni

01.07.2024

Fréttir
Blóm.

Samfélagssjóður EFLU veitti í síðustu viku fjárstyrki til sjö samfélagsverkefna. Styrkjum var úthlutað til styrkþega á formlegum viðburði annarsvegar í höfuðstöðvum EFLU, að Lynghálsi 4 í Reykjavík, og hins vegar á svæðisstöð fyrirtækisins á Akureyri.

Farsæl þróun samfélagssins

Samfélagssjóður EFLU hefur verið starfræktur frá 2013 og er úthlutað úr sjóðnum tvisvar á ári. Markmið sjóðsins er að styðja við framtak einstaklinga og hópa sem stuðla að farsælli þróun samfélagsins, auknum lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi. Umsóknir eru metnar út frá markmiðum sjóðsins, markmiðum EFLU og áherslum valnefndar.

Umsóknarfrestur fyrir haustúthlutun sjóðsins er 15. október.

Hér á eftir er upptalning þeim verkefnum sem hlutu styrk ásamt upplýsingum um þau.

Þrír menn með blóm.

Frá Malaví til Mosó

Tveir ungir drengir frá Malaví, fimmta fátækasta ríki heims, dvelja hjá fósturfjölskyldu í Mosfellsbæ þar sem þeir æfa með meistaraflokki og keppa með 2. flokki Aftureldingar í knattspyrnu. Drengirnir koma frá knattspyrnuakademíunni Ascent Soccer sem kom, sá og sigraði á Rey Cup mótinu í Reykjavík í fyrra. Vinum drengjanna í 2. flokki Aftureldingar er mikið í mun að halda þeim í liðinu fram á haust enda eru þeir flottir leikmenn og góðir félagar. Styrkurinn verður nýttur í uppihald fyrir þessa drengi á meðan dvöl þeirra stendur.

Maður og kona með blóm.

Leikfélag Húsavíkur

Á hverju ári setur Leikfélag Húsavíkur upp metnaðarfulla leiksýningu. Það er hópur sjálfboðaliða sem sér um allan búningasaum og hafa þátttakendur oftar en ekki þurfta að reiða sig á gamlar og þreyttar vélar, eða lagt til sínar eigin. Styrkurinn verður nýttur til kaupa á tveimur saumavélum, einni venjulegri og annarri svokallaðri Overlock.

Stelpa og strákur.

Bjargráður

Bjargráður skipuleggur fyrirlestra fyrir framhaldsskóla landsins sem eru haldnir af fyrsta árs læknanemum við Háskóla Íslands, sem hafa fengið viðunandi þjálfun í skyndihjálp. Öll vinna í félaginu er sjálfboðaliðastarf og fyrirlestrar eru fluttir framhaldsskólum að kostnaðarlausu. Fyrirlestrarnir eru gerðir af eldri nemum í samráði við lektor og kennslustjóra í bráðalækningum samkvæmt nýjustu klínískum leiðbeiningum. Styrkurinn verður nýttur í helstu útgjöld félagsins sem eru t.a.m. bensínkostnaður vegna fyrirlestra úti á landi, kennslugögn, svo sem dúkkur og annar búnaður og kennsla fagaðila fyrir læknanema svo eitthvað sé nefnt.

Maður og kona með blóm.

Hvernig varð ég til?

Hönnun og prentun á bókinni „Hvernig varð ég til?“ eftir Andreu Björt Ólafsdóttur. Um er að ræða barnabók sem aðstoðar fjölskyldur við að upplýsa börn um hvernig þau urðu til ef fólk fær aðstoð frá egg- eða sæðisgjafa við barneignarferlið. Bókin er fyrir samkynja pör, tvíkynja pör og einstaklinga sem eignast börn ein. Bókin er hugsuð sem hjálpartæki og barnabók þannig að barn getur skoðað hana og handfjatlað, en engin slík bók hefur verið gefin út á íslensku áður.

Maður og kona með blóm.

Ungmennafélagið Efling

Styrkur til Ungmennafélagsins Efling sem verður nýttur til að endurnýja keppnisáhöld vegna Meistaramóts Íslands fyrir 11-14 ára í frjálsíþróttum sem haldið verður að Laugum í sumar. Þátttakendur á MÍ koma víðsvegar að af landinu og hefur mótið verið vel sótt. Á síðasta ári voru þátttakendur um 160 talsins og von er á álíka fjölda að Laugum í sumar, styrkurinn kemur því til með að nýtast fjöldanum öllum af ungu frjálsíþróttafólki af öllu landinu.

Menn með blóm.

Keppnisvöllur í frisbígolfi í Selskógi

Verkefnið snýst um að byggja 18 holu frisbígolfkeppnisvöll fyrir lengra komna í Selskógi, sem er helsta útivistarsvæði Egilsstaða. Þá verða settir upp styttri teigar fyrir byrjendur og fjölskyldur. Vöntun er á keppnisvelli í frisbígolfi á stórum hluta landsins en flesta slíka velli má finna á og í kringum höfuðborgarsvæðið og á Akureyri. Markmið nýs frisbígolfvallar í Selskógir er að koma til móts við lengra komna spilara í frisbígolfi á svæðinu og veita áhugasömum um íþróttina tækifæri til að spreyta sig.

Maður og kona með blóm.

Hollvinafélag Kvíabekkjarkirkju í Ólafsfirði

Styrkurinn verður nýttur til uppbyggingar á einum merkasta sögustað Ólafsfjarðar, Kvíabekkjarkirkju. Kvíabekkjarkirkja stendur á landnámsjörð Ólafs Bekks Karlssonar, Kvíabekk í Ólafsfirði. Fyrirhugaðar framkvæmdir næsta árs er að ljúka klæðningu kirkjunnar og endurnýja þakið og turninn á kirkjunni. Með uppbyggingu og þeim upplýsingum á skiltum sem þar verður komið fyrir er vakin athygli á áhugaverðum þætti í menningarsögu Ólafsfjarðar. Með þessari framkvæmd standa vonir til að bjarga menningarverðmætum og búa til umgjörð til að miðla sögu staðarins til komandi kynslóða.

Við óskum styrkhöfum hjartanlega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með framgangi verkefnanna. Jafnframt þökkum við öllum sem sendu umsókn um styrk í samfélagssjóð EFLU fyrir og óskum þeim góðs gengis.

Nánar um Samfélagssjóð EFLU.