Samfélagssjóður EFLU veitir úthlutun til 8 verkefna

13.12.2017

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Samfélagssjóður EFLU veitti sína elleftu úthlutun í dag. Að þessu sinni bárust 77 umsóknir í alla flokka og hlutu 8 verkefni styrk. Umsóknir voru metnar út frá markmiðum sjóðsins, markmiðum EFLU og áherslum nefndarinnar.

Samfélagssjóður EFLU veitir úthlutun til 8 verkefna

Verkefnin sem hlutu styrk eru:

Hjálpræðisherinn í Reykjavík

Opið hús Hjálpræðishersins í Mjódd býður fólki upp á heitan mat og kaffi. Allir eru velkomnir og þarf ekki að greiða fyrir matinn. Þar er einnig veitt aðstoð við að sækja um matarkort, sjálfboðaliðar veita stuðning og eru til staðar fyrir þá sem þurfa hjálp. Nokkur kostnaður fylgir verkefninu tengt matarinnkaupum en allir starfsmenn eru sjálfboðaliðar. Með því að fá fólk í opna húsið er verið að rjúfa félagslega einangrun fólksins.

Hjartarvernd | útrýma ótímabærum hjarta- og æðasjúkdómum

Markmiðið með verkefninu er að uppræta ótímabær áföll af völdum hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi. Með nýrri nálgun í forvörnum verður hægt að koma í veg fyrir sjúkdómsþróun á efri árum og skiptir það lýðheilsu landsmanna afar miklu máli. Innleiðing verkefnisins mun standa í fimm ár.

Félag Fagkvenna | Kynna iðngreinar og konur í karllægum iðngreinum

Markmið verkefnisins er að stuðla að viðhorfsbreytingu gagnvart iðnnámi. Farið verður í fræðslustarf sem felur í sér að heimsækja skóla landsins og kynna konur í karllægum iðngreinum, ásamt því að kynna iðngreinar fyrir krökkum. Vonandi næst að auka áhuga á iðngreinum og sýna fram á að iðnám er ákjósanlegur valkostur.

Leikskólinn Iðavöllur á Akureyri | Það er leikur að læra

Markmiðið er að efla íslenskukunnáttu barna og foreldra af erlendum uppruna, styrkja samstarf milli skóla og heimilis, auka þátttöku foreldra í skólastarfi og auðvelda fjölskyldum af erlendum uppruna að mynda tengsl í íslenskt samfélag. Styrkurinn verður nýttur til að útbúa tösku sem börn af erlendum uppruna geta skipst á að taka með sér heim. Markmiðið með verkefninu er að efla orðaforða sem þau læra hverju sinni í leikskólanum. Í töskunni verður að finna spjaldtölvu með orðaforðaverkefnum, spil, bækur og hugmyndir að leikjum.

Félag Horizone | Stærðfræðikeppni

Pangea stærðfræðikeppnin er fyrir alla nemendur áttunda og níunda bekkja í grunnskólum landsins. Keppnin er haldin í yfir 17 löndum í Evrópu en var haldin í fyrsta sinn á Íslandi vorið 2016. Markmið keppninnar er að vekja áhuga hjá ungu fólki á stærðfræði, hvetja þá nemendur sem erfiða við stærðfræði til dáða með því að sýna þeim að þau geti afrekað mikið ef þau reyna áfram. Einnig að hvetja efnislegustu nemendurna til áframhaldandi afreka. Styrkurinn verður notaður til að standa straum af kostnaði vegna lokakeppninnar.

Inngangur að leiklist | Bók skrifuð fyrir fyrsta áfanga í framhaldsskóla

Markmið bókarinnar er að nemendur kynnist leiklist, átti sig á samhenginu milli ímyndunarafls og leiks og kunni skil á helstu grunnskrefum í leiktúlkun. Megin­áhersla er lögð á notkun ímyndunaraflsins og í hverjum kafla bókarinnar er að finna stutta samantekt, verkefni og skilgreiningar á grundvallarhugtökum. Hingað til hefur vantað sambærilegt kennsluefni á þessu skólastigi. Styrkurinn fer í að standa straum af kostnaði er varðar prentun og uppsetningu á fyrsta upplagi bókarinnar.

Kona á skjön | Sögusýning um skáldkonuna Guðrúnu frá Lundi

Markmið verkefnisins er að segja mikilvæga og einstaka sögu Guðrúnar frá Lundi og gera fólki kleift að sækja fræðslusýningu um rithöfundinn. Sýningin hefur verið sýnd á Sauðárkróki og notið mikillar hylli og fengið góða fjölmiðlaumfjöllun. Sýningin verður sett upp í Borgarbókasafninu í janúar næstkomandi og verður sýnd á Akureyri næsta sumar. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Ungir umhverfissinnar | Kynning á umhverfismálum í framhaldsskólum

Halda áfram kynningum um umhverfismál í framhaldsskólum landsins og hvernig ungmenni geta haft áhrif. Á síðasta ári hafa kynningar verið haldnar í 18 framhalds­skólum af 30, en með styrknum á að vera hægt að klára kynningar hjá þeim 12 skólum sem eftir eru. Kynningin fjallar um umhverfismál í heiminum í dag, t.d. loftlags-, fráveitu- og auðlindamál. Tekin eru dæmi sem nemendur geta tengt við.

Nánar um samfélagssjóð EFLU