Samfélagssjóður styrkir vegglistaverk á Flateyri

24.08.2021

Fréttir
A woman stands in a field of tall grass next to a building with  large mural of a bird on its side

Jean Larson, listakona, málaði fuglana á húsveggi til að fræða um fuglalíf Önundarfjarðar.

Á Flateyri hafa verið töfruð fram frumleg og eftirtektarverð vegglistaverk á húsveggjum bygginga víðsvegar um þorpið. Verkefnið hlaut styrk úr samfélagssjóði EFLU síðastliðið haust.

Markmið verkefnisins, sem ber yfirskriftina FLATBIRDS, er að koma á fót einstakri göngu um Flateyri fyrir fjölskyldur, börn og aðra gesti og skapa sérstaka og frumlega upplifun til að læra um fuglalíf Önundarfjarðar í gegnum áhugaverða og fallega list.

Fuglarnir í Önundarfirði

Vegglistaverkin, sem eru tólf talsins, tákna fuglategundir sem finnast í Önundarfirði. Þau hafa verið máluð með leyfi frá eigendum húseignanna. Gestir geta notið þess að leita að og skoða vegglistaverkin á göngu um hið einstaka umhverfi þorpsins á Flateyri. Sum verkanna eru, eins og fuglarnir sjálfir, á óvæntum og nokkuð földum stöðum og því þurfa áhugasamir að leggja sig nokkuð fram við leitina.

Jean Larson, íbúi á Flateyri og þekkt listakona frá Michigan í Bandaríkjunum, hefur í samstarfi við Juraj Hubinák, annan íbúa á Flateyri og verkefnastjóra Lýðskólans á Flateyri, unnið að verkefninu við að gera það að veruleika. Í því fólst að tryggja nauðsynlegt fjármagn og gáfu þau alla vinnu sína við verkefnið en Jean töfraði fram málverkin á húsveggjum bygginganna.

Samfélagssjóður EFLU

Tvisvar á ári veitir EFLA styrki til uppbyggjandi og jákvæðra verkefna sem nýtast samfélaginu og hlaut verkefnið styrk úr sjóðnum síðastliðið haust. Hlutverk samfélagssjóðsins er að styðja við framtak einstaklinga og hópa sem stuðla að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi.

Við óskum forsvarsmönnum framtaksins og íbúum Flateyrar hjartanlega til hamingju með glæsilegu listaverkin og eftirtektarvert verkefni.