Vorúthlutun úr Samfélagssjóði EFLU fór fram í gær þegar alls sjö verkefni fengu styrk. Fulltrúar þessara verkefna mættu til viðburðar í höfuðstöðvum EFLU í Reykjavík í tilefni af úthlutuninni.
Úthlutað tvisvar á ári
Samfélagssjóður EFLU hefur það að markmiði að veita styrki til uppbyggjandi og jákvæðra verkefna sem nýtast samfélaginu. Þetta er gert til þess að styðja framtak einstaklinga og hópa sem stuðla að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi.
Sjóðurinn hefur verið starfræktur síðan árið 2013 og er styrkjum úthlutað úr honum tvisvar á ári, að vori og að hausti. Næsta úthlutun verður í haust og er hægt sækja um styrk í sjóðinn til og með 15. október. Það er gert á vefsíðu EFLU.
Þau sjö verkefni sem fengu styrk að þessu sinni eru mjög fjölbreytt en eiga það þó sameiginlegt að uppfylla kröfur og skilyrði Samfélagssjóðs EFLU um að vera uppbyggjandi og nýtast samfélaginu.
Baskasetur í Djúpavík
Baskasetur í Djúpavík er menningar- og sjálfbærniverkefni staðsett í Árneshreppi. Setrinu er ætlað að verða alþjóðleg miðstöð sem vekur athygli á samspili manns og náttúru, einkum með áherslu á hafið, súrnun sjávar og plastmengun. Það byggir á alþjóðlegu samstarfi við stofnanir á Íslandi, Spáni og í Frakklandi og sækir innblástur í sögulega tengingu við baskneska hvalveiðimenn.
Fyrri hluta sýningarinnar hefur þegar verið opnað í tanki síldarverksmiðjunnar á Djúpavík, en verkefnið snýst nú um að ljúka seinni áfanga, m.a. með uppbyggingu móttökuhúss, viðgerðum og raflögnum.
Verkefnið nýtist ferðamennsku, menningarlífi og atvinnuuppbyggingu á svæðinu og vonast er til að það skili jákvæðum samfélagslegum áhrifum þegar framkvæmdir hefjast sumarið 2025, með opnun í september sama ár.

Dunda markaðstorg
Dunda markaðstorg er nýtt stafrænt sölutorg fyrir skapandi fólk á Íslandi, handverkafólk, hönnuði og listafólk, sem vill koma verkum sínum á framfæri á einfaldan og aðgengilegan hátt. Markaðstorgið tengir seljendur beint við kaupendur, bæði innanlands og erlendis, og styður við sjálfbært og fjölbreytt atvinnulíf. Dunda.is býður upp á rekstrarlíkan með mánaðargjaldi og veltuhlutdeild og verður kynnt í gegnum samfélagsmiðla, fjölmiðla og viðburði.
Verkefnið er leitt af Bryndísi Hrönn Kristinsdóttur og Unni Agnesi Níelsdóttur og þegar hafa 25 seljendur skráð sig með yfir 200 vörur. Stefnt er að opnun með um 50 virka seljendur.

Efling brunavarna og fyrstu hjálpar í skíðaskála Hengils
Efling brunavarna og fyrstu hjálpar í skíðaskála Hengils er verkefni sem miðar að því að bæta öryggi í skálanum með uppfærslu á slökkvi- og björgunarbúnaði. Skíðaskálinn Hengill í Bláfjöllum er í sameign skíðadeilda ÍR og Víkings og er opinn almenningi yfir vetrartímann, en rekstur og viðhald byggir alfarið á sjálfboðastarfi foreldra iðkenda.
Markmiðið er að kaupa sjö léttvatnsslökkvitæki, slökkvitæki fyrir eldhús, tvö brunarvarnarteppi, hjartastuðtæki, lifevac-tæki og tvo sjúkrakassa. Verkefnið mun auka öryggi allra sem nýta sér skálann, bæði iðkenda, fjölskyldna þeirra og almennings.

Hinsegin dagar – Reykjavík Pride 2025
Hinsegin dagar – Reykjavík Pride 2025 er árleg hátíð sem fagnar fjölbreytileikanum, eflir réttindi hinsegin fólks og veitir vettvang fyrir fræðslu, samstöðu og baráttu. Hátíðin nær hámarki í Gleðigöngunni en inniheldur einnig fjölbreytta dagskrá fræðsluviðburða sem öllum er opin, auk útgáfu tímaritsins Hinsegin dagar sem dreift er um allt land. Undirbúningur er hafinn fyrir Hinsegin daga 2025, sem fara fram dagana 3.–9. ágúst.
Markmiðið er að efla hinsegin sýnileika og stuðla að samfélagi sem byggir á jöfnuði og samstöðu. Verkefnið nýtist fyrst og fremst hinsegin samfélaginu, en hefur einnig jákvæð áhrif á íslenskt samfélag í heild.

Stelpur diffra
Stelpur diffra eru sumarnámsbúðir í stærðfræði ætlaðar stelpum og stálpum á framhaldsskólaaldri. Verkefnið hefur það markmið að efla áhuga þeirra á stærðfræði og tengdum greinum og vinna gegn kynjahalla sem enn er ríkjandi í þessum fögum. Í búðunum fá þátttakendur að kynnast ólíkum sviðum stærðfræðinnar í gegnum skemmtileg verkefni og fyrirmyndir í formi kvenna sem starfa innan STEM-greina.
Verkefnið hefur verið haldið síðustu fjögur sumur með góðum árangri. Stefnan í ár er að bæta við námsbúðum á Akureyri með nýju námskeiði undir heitinu Stelpur í STEM og framhaldi á Kennarar diffra. Búðirnar eru öllum opnar og hafa þegar skilað árangri. Þátttakendur hafa m.a. valið sér nám í stærðfræði, eðlisfræði og verkfræði.

Systkinahópar
Systkinahópar er verkefni ætlað systkinum barna með sjaldgæfa sjúkdóma eða heilkenni, sem oft finna til félagslegrar einangrunar og skorts á skilningi á aðstæðum sínum. Verkefnið felur í sér fimm skipti þar sem hópar hittast til að fræðast, föndra og tengjast öðrum í svipaðri stöðu. Fagaðilar, sálfræðingar og tómstundafræðingar stýra hverju skipti og veita börnunum stuðning og möguleika til að tjá sig.
Markmiðið er að skapa öruggt rými þar sem þau geta deilt reynslu sinni, fundið samhengi og átt sinn stað, sem eykur líkur á bættri líðan og sjálfstrausti. Verkefnið hófst 25. mars og lýkur 9. desember 2025.

Team Spark
Team Spark er þróunarverkefni við Háskóla Íslands þar sem nemendur hanna og smíða rafknúinn kappakstursbíl sem keppir í alþjóðlegu verkfræðikeppninni Formula Student. Liðið er skipað nemendum sem skiptast í sex teymi sem sinna meðal annars burðarvirkjun, rafmagnsmálum og loftfræði. Verkefnið stuðlar að aukinni verkfræðikunnáttu og þekkingu á rafknúnum ökutækjum.
Meðlimir liðsins öðlast dýrmæta reynslu og þekkingu, og Háskóli Íslands og samstarfsaðilar njóta einnig góðs af verkefninu. Í ár keppir liðið á Formula Student Spain dagana 4.–10. ágúst.