Samgöngu- og skipulagsmál rædd

23.11.2018

Fréttir
A woman and a man standing next to each other

Bryndís Friðriksdóttir og Sigurður Grímsson hjá EFLU. Mynd Stefán, Fréttablaðið.

EFLA hefur unnið með sveitarfélögum og fyrirtækjum í því að marka stefnu varðandi skipulagsmál og samgöngumál. Í verkefnunum er mikil áhersla lögð á að veita umhverfisvænni lausnir. Starfsmenn EFLU, Bryndís Friðriksdóttir og Sigurður Grímsson, fóru yfir málið með blaðamanni á dögunum.

Samgöngu- og skipulagsmál

Viðtalið við Bryndísi og Sigurð birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 23. nóvember í sérblaði sem fjallaði um vistæn ökutæki. Meðal þess sem var rætt var mikilvægi þess að gera fólki kleift að velja aðra samgöngukosti en einkabílinn. Bryndís vinnur mikið með arkitektum og yfirvöldum við útfærslu og hönnun uppbyggingarsvæða með það að markmiði að gera fólki auðveldara að nota einkabílinn í minna mæli. Má þar nefna að leggja hjólastíga, góðar gönguleiðir, auka vægi almenningssamgangna og annað í þeim dúr enda er margt í samgöngukerfinu sem rafbílar koma ekki til með að leysa einir og sér. „Eins erum við að horfa til lausna eins og að samnýta bílastæði innan uppbyggingarreita en slíkar lausnir sjást í auknum mæli erlendis. Þá eru ekki sett niður bílastæði fyrir utan hvert hús heldur reynt að samnýta stæði með verslunar- og þjónustukjörnum í kring þar sem nýtingarþörfin er önnur. Þar eru bílar yfir daginn á meðan íbúar eru í vinnu en yfirleitt horfnir á kvöldin þegar íbúar koma heim. Með þessu móti má líka spara landssvæði og nýta það undir eitthvað skemmtilegt,“ segir Bryndís.

EFLA veitir einnig ráðgjöf um hentugar hleðslulausnir fyrir rafmagns- og tvinnbíla og segir Sigurður að slíkar lausnir séu svipaðar þó svo að rafmagnsbílarnir taki inn á sig talsvert meiri raforku. „Í nýbyggingum er gert ráð fyrir rafbílahleðslum en í eldri húsum og fjölbýlishúsum getur þurft að fjárfesta í stýrikerfi eða leggja nýja rafmagnsheimtaug.“

Það er velkomið að fá nánari upplýsingar um þjónustuna hjá Sigurði.

Lesa grein.