Nýverið hélt Vegagerðin sína árlegu rannsóknaráðstefnu og þar kynnti starfsfólk EFLU stöðu verkefna sem hafa fengið styrk úr rannsóknasjóð.
Vegagerðin hélt árlega rannsóknaráðstefnu sína þann 29. október síðastliðinn. Markmið ráðstefnunnar er að endurspegla afrakstur rannsókna- og þróunarstarfs sem er unnið í vegamálum hér á landi.
Rannsóknir og nýsköpun gegna mikilvægu hlutverki hjá EFLU og meðal þess sem hefur verið unnið að eru rannsóknaverkefni sem hlutu styrk úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Á ráðstefnunni kynnti starfsfólk EFLU stöðu nokkurra þeirra verkefna sem hafa fengið styrk.
Tæring málma í andrúmslofti
Vigdís Bjarnadóttir, mannvirkjajarðfræðingur, og Baldvin Einarsson, byggingarverkfræðingur, kynntu tvö verkefni í tengslum við tæringu málma. Í öðru verkefninu er verið að mæla tæringu á hægryðgandi stáli með sérstöku tilliti til notkunar í brúargerð og eru niðurstöðurnar bornar saman við niðurstöður mælinga á tæringu á stálsýnum á sömu stöðum, en hitt verkefnið gengur einmitt út á það.
Fyrstu niðurstöður benda til þess að tæring á hægryðgandi stáli mælist meiri en á venjulegu stáli á sumum stöðum á landinu en það er þó óvarlegt að lesa of mikið í takmarkaðar mælingar enn sem komið er.
Stauraundirstöður fyrir brýr
Andri Gunnarsson, byggingarverkfræðingur og húsasmíðameistari, fór yfir verkefni sem verið er að skoða notkun á nýrri tegund af álagsprófum fyrir staura og leggja þannig grunn að því að hægt sé að álagsprófa staura í brúarundirstöðum á skilvirkari og einfaldari hátt en hingað til. Ávinningurinn af þessu er m.a. að slíkar prófanir staðfesta burðarþol stauraundirstaðna, hönnunarforsendur og þar með öryggi mannvirkisins og með betri gögnum er hægt að taka upplýstari ákvarðanir og þar með vonandi ná fram hagkvæmari og umhverfisvænni hönnun.
Grænar raforkulausnir fyrir vita byggðar á efnarafölum
Atli Már Ágústsson, rafmagnstæknifræðingur, fór yfir stöðu verkefnis sem snýr að því að kortleggja möguleika á rafeldsneytislausnum fyrir vita landsins. Gert var stöðumat með því að greina núverandi lausnir, hvað er gott og hvað má betur fara og með því að skipta vitum niður í flokka eftir núverandi orkulausnum og aðstæðum. Síðan voru mismunandi orkulausnir kortlagðar og fýsileiki þeirra greindur.
Tarva - Mat á aðgerðum sem stuðla að bættu umferðaröryggi
Tilgangur verkefnisins er að skoða Tarva aðferðina og möguleika hennar á að meta óhappa- og slysatíðni og meta hvort aðferðin sé gjaldgeng á Íslandi. Samgönguverkfræðingarnir Berglind Hallgrímsdóttir, Arna Kristjánsdóttir og Ragnar Gauti Hauksson sáu um að kynna niðurstöðurnar á veggspjaldi.
Þróun á endafrágangi brúa til að lágmarka viðhald vega við brúarenda
Í verkefninu voru teknar saman erlendar rannsóknir á því hvað valdi og hvernig megi fyrirbyggja skemmdir vegyfirborðs við brúarenda samfelldra brúa, hvaða kröfur íslenskir og erlendir staðlar gera við hönnun samfelldra brúa, og gerður samanburður á vegyfirborði við nokkrar samfelldar brýr. Byggingarverkfræðingarnir Magnús Arason, Baldvin Einarsson og Ingvar Hjartarson sáu um kynningu á veggspjaldinu.