Hinsegin dagar 2025 fara fram dagana 3.–9. ágúst í Reykjavík. Hátíðin, sem er orðin ein stærsta menningarhátíð landsins, fékk styrk úr Samfélagssjóði EFLU. Hún fagnar fjölbreytileikanum, eflir réttindi hinsegin fólks og veitir vettvang fyrir fræðslu, samstöðu og baráttu.
Vaxandi sýnileiki og áhrif
Hinsegin dagar hafa á undanförnum árum gegnt lykilhlutverki í að auka sýnileika hinsegin fólks á Íslandi. Um fjórðungur þjóðarinnar tekur þátt í hátíðinni og skapar þannig öruggt rými fyrir fólk til að koma út, fagna fjölbreytileika og byggja tengsl. Þetta endurspeglast í slagorði ársins 2025: Samstaða skapar samfélag.
Að sögn Helgu Haraldsdóttur, formanns Hinsegin daga, felur dagskráin í sér aukna áherslu á aðgengi, fjölbreytni og samfélagslega ábyrgð. Meðal nýjunga er samstarf við ÖBÍ til að efla sýnileika fatlaðs fólks og tryggja virka þátttöku allra. Þá verður einnig lögð sérstök áhersla á viðburði fyrir hinsegin fjölskyldur, eldra fólk og ungmenni, auk þess sem jaðarsettir hópar koma sterkar inn í bæði tímarit og dagskrá.
Langtímamarkmið og áskoranir
„Tímaritið Hinsegin dagar hefur reynst ómetanlegt fyrir hinsegin samfélagið,“ segir Helga. „Fyrir marga, sérstaklega þau sem búa úti á landi eða eru í skápnum, er það oft eina tengingin við samfélagið og hátíðina.“
Að sögn Helgu eru langtímamarkmið Hinsegin daga að auka sýnileika og viðurkenningu hinsegin fólks, tryggja aðgengi allra að viðburðum, byggja upp sjálfbæra hátíð og styrkja samstöðu innan og utan samfélagsins.
„Við stöndum þó frammi fyrir áskorunum,“ segir hún. „Það þarf að tryggja aðgengi fyrir öll, ná betur til fólks á landsbyggðinni, viðhalda sjálfboðaliðastarfi og bregðast við samfélagslegum afturförum og fordómum.“
Framtíðin er björt
„Framtíð Hinsegin daga er björt ef við höldum áfram að byggja á grunngildum hátíðarinnar: sýnileika, fjölbreytni og samstöðu,“ segir Helga að lokum. „Samstaða skapar samfélag og með henni byggjum við framtíð þar sem öll eiga heima.“
Veittir eru styrkir úr Samfélagssjóði EFLU tvisvar á ári. Hægt er að fá frekari upplýsingar og sækja um styrki á vefsíðu sjóðsins.