Þriðjudaginn 3. september fer fram ársfundur Grænvangs 2025 í Hátíðarsal Grósku. Fundurinn, sem er frá kl. 14 til 16, er opinn öllum og verður vettvangur fyrir samtal um samkeppnishæfni, öruggt orkukerfi og loftslagslausnir með þátttöku stjórnvalda, atvinnulífs og erlendra sérfræðinga.
EFLA og Grænvangur
EFLA hefur verið virkur þátttakandi í starfi Grænvangs allt frá stofnun vettvangsins árið 2019 og lagt sitt af mörkum við þróun loftslagslausna og orkuskipta í gegnum fjölbreytt verkefni og samstarf. Með því hefur EFLA tekið virkan þátt í að móta framtíðarsýn um kolefnishlutlaust og sjálfbært Ísland.
Grænvangur er samstarfsvettvangur sem hvetur til samtals og lausnamiðaðs samstarfs milli atvinnulífs og stjórnvalda. Hlutverk hans er að styðja við markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 og efla útflutning grænna lausna í gegnum markaðsverkefnið Green by Iceland.
Stjórn Grænvangs er skipuð tíu fulltrúum, fimm frá atvinnulífinu og fimm frá hinu opinbera. Guðmundur Þorbjörnsson, á sviði viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá EFLU, er fulltrúi fyrirtækisins í stjórninni og hefur verið þar frá upphafi. Þátttaka EFLU á þessum vettvangi endurspeglar skuldbindingu fyrirtækisins til að vera leiðandi í sjálfbærni og nýsköpun á sviði orkumála og loftslagslausna.
Dagskrá ársfundar
Dagskrá ársfundarins býður meðal annars upp á samtal við forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, sem einnig er verndari Grænvangs erindi frá dönskum sérfræðingum í orkumálum og kolefnisstjórnun og hringborðsumræður með íslensku áhrifafólki. Fundurinn fer fram á íslensku og ensku og að lokinni dagskrá verður boðið upp á léttar veitingar.