Samstarf um nýsköpun á Norðurlandi

24.06.2024

Fréttir
Maður og kona handsala samning á brú inni í almenningsgarði.

Samningur Reynir Sævarsson, stjórnarformaður EFLU, og Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastýra Driftar EA, handsala samninginn.

EFLA er meðal þeirra fyrirtækja sem tekur þátt í samstarfi um nýsköpun á Norðurlandi í verkefninu Drift EA á Akureyri. Samningur um þetta samstarf var undirritaður í Lystigarðinum á Akureyri í liðinni viku.

Aðstoða og hjálpa frumkvöðlum

Markmiðið með Drift EA er að byggja upp og styðja við frumkvöðlastarf á Eyjafjarðarsvæðinu. Um er að ræða óhagnaðardrifna sjálfseignarstofnun sem leitast við að aðstoða og hjálpa frumkvöðlum að þróast og vaxa með því að móta og innleiða áætlanir í takt við þau verkefni sem tekist er á við hverju sinni. Starfsemin mun vera með aðsetur í gamla Landsbankahúsinu við Ráðhústorg á Akureyri.

EFLA er eitt sex fyrirtækja sem verða hluti af kjarnateymi Drift EA og er ætlað að mynda tengingar milli frumkvöðla, fyrirtækja og fræðanets. Auk EFLU eru í þessu kjarnateymi Cowi, Deloitte, Enor, Geimstofan, og KPMG. Þá er Háskólinn á Akureyri einnig hluti af þessu verkefni.

Hópur fólks tekur höndum saman.

DRIFT Fulltrúar Driftara taka höndum saman.

Passar vel við stefnu EFLU

„Nýsköpun og stuðningur við hana skiptir EFLU miklu máli. Markmið og áætlanir Drift EA passa vel inn í okkar stefnu varðandi þessi mál og þess vegna viljum við gjarnan taka þátt í þessu verkefni. Auk þess er einkar mikilvægt að svona starfsemi sé í boði á landsbyggðinni þar sem er hægt að vinna í nálægð við þau verkefni eða viðfangsefni sem nýsköpuninni er ætlað að leysa,“ segir segir Jónína Björk Vilhjálmsdóttir, sviðsstjóri þróunar hjá EFLU.

„Allir sjö aðilarnir hafa verið sérlega áhugasamir um að gerast Driftarar og hafa sýnt það í verki að það er mikill vilji til að vinna saman þó að fyrirtækin séu með einum eða öðrum hætti í beinni samkeppni. Fyrirtækin munu verða með starfsaðstöðu hjá Drift EA til að þjónusta frumkvöðla, nýsköpunarfyrirtæki eða verkefni sem verða valin í Drift EA, ásamt því að taka virkan þátt í að þróa verkefni með okkur, vera mentorar, halda fyrirlestra og annað sem tengist því að byggja upp þekkingu á svæðinu og efla nýsköpunarsamfélagið,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastýra Driftar EA.

Maður og kona á samkomu utan dyra.

Gestir Helgi Már Pálsson og Elín María Helgadóttir, byggingatæknifræðingar hjá EFLU Norðurlandi, mættu á viðburðinn.

Ráðgjöf sem mætir þörfum umsækjenda

Margþætt þjónusta verður í boði fyrir frumkvöðla með það að markmiði að mæta fjölbreyttum þörfum hvers og eins. Meðal þeirrar þjónustu sem boðið verður upp á er eftirfarandi:

  • Ráðgjöf um fjármögnun og áætlanir
  • Aðstaða og samfélag
  • Aðstoð við gerð styrkjaumsókna
  • Aðgengi að rannsóknar- og þróunarverkefnum
  • Þjálfun í kynningu og framkomu
  • Undirbúningur fyrir fjárfestafundi
  • Aðgengi að viðtæku tengslaneti Driftar EA á landsvísu og utan landsteina
  • Persónulegar tengingar við fjárfesta og aðra hagaðila
  • Sérsniðna sérfræðiaðstoð