Samstarfssamningur undirritaður í ráðherrabústaðnum

20.05.2014

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Í dag var undirritaður formlegur samstarfssamningur á milli EFLU, Bremenports, Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps, sem staðfestir ákvörðun að vinna saman um mat á hagkvæmni alþjóðlegrar umskipunar- og þjónustuhafnar í Finnafirði og ábata fyrir nærliggjandi svæði og sveitarfélög. Viðstödd undirritunina voru þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Samstarfssamningur undirritaður í ráðherrabústaðnum

Samningurinn kveður á um réttindi og skyldur aðila við rannsóknir og mat á lagalegum, tæknilegum, umhverfislegum og fjárhagslegum þáttum framkvæmda. Með samningnum liggur fyrir áætlun um þær rannsóknir sem ráðast þarf í næstu ár. Heildarkostnaður við rannsóknir, umhverfismat og frumhönnun er áætlaður að nemi nokkur hundruð milljónum króna. Bremenports mun leggja til fjármagn til þessara verkefna.

Á yfirstandandi ári verður megin áhersla lögð á söfnun gagna vegna umhverfismats og frumhönnunar og skipulag hafnarinnar. Hafist verður handa við að skoða gróður og fuglalíf á mjög stóru svæði í og við Finnafjörð. Jarðtæknilegar athuganir fara fram og komið verður fyrir veðurstöðvum á svæðinu og mælibaujum. Nákvæmar landmælingar og kortagerð munu ennfremur verða gerðar. Á árinu 2015 halda lífríkisrannsóknir áfram auk þess sem fornleifarannsóknum verður sinnt. Einnig verður lífríki fjöru og fjarðar rannsakað. Frumhönnun hafnarinnar mun hefjast sem og frumskoðun innra skipulags hafnarsvæðisins. Líklegt er að formlegt umhverfismatsferli geti hafist árið 2016 og má reikna með að það taki alls 2 ár. Framkvæmdir við Finnafjörð gætu því í fyrsta lagi hafist árið 2018. Á komandi mánuðum munu eiga sér stað viðræður milli stjórnvalda og þróunaraðila Finnafjarðarhafnar um nauðsynlega innviði og grunngerð við Finnafjörð, s.s. raforkuafhendingu og vegagerð.

Sjá tengdar fréttir og annað ítarefni hér fyrir neðan.

Frétt frá ágúst 2013.

Frétt frá júní 2013.

Fyrirlestrarröð EFLU á landsbyggðinni, fyrirlestur Hafsteins Helgasonar um Finnafjörð og tækifærin.

Kynningarrit um verkefnið (PDF)

Frétt mbl.is um undirritunina í dag.