Sérfræðingar EFLU að störfum í Grindavík

11.12.2023

Fréttir
A satellite photo of a town

Sérfræðingar EFLU á sviði myndmælinga hafa verið að störfum í Grindavík síðastliðnar vikur til að fá sem nákvæmasta mynd af ástandi fasteigna og mannvirkja bæjarins í kjölfar þeirra alvarlegu jarðhræringa sem hófust á svæðinu þann 10. nóvember síðastliðinn.

Sérfræðingar EFLU að störfum í Grindavík

Beiðni um verkið barst frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands og voru sérfræðingar EFLU komnir á staðinn um leið og veðurskilyrði leyfðu. Til að ná sem nákvæmastri mynd af ástandi bæjarins voru notaðir drónar, en í heildina voru flogin 60 flug með drónum. Með því tókst að mynda allan Grindavíkurbæ úr 200 metra hæð yfir sjávarmáli, auk þess sem leyfi fékkst til að fljúga neðar yfir ákveðnum sprungusvæðum til að fá enn skýrari mynd af þeim skemmdum sem stærstu sprungurnar ollu. Í framhaldi verður væntanlega notast við hitamyndavél til að reyna að sýna fram á ástandhitalagna í bænum.

Notast er við dróna af öflugustu gerð sem búnir eru hárnákvæmum staðsetningar- og mælitækjum og hafa flugmennirnir samanlagt þúsundir klukkutíma reynslu af drónaflugi. Sérfræðingar EFLU eru þaulvanir því að vinna við mjög krefjandi aðstæður og komu meðal annars að mælingaflugi vegna mosabrunans við Litla Hrút sumarið 2023.

Afurðir vinnunar í Grindavík eru loftmyndir og þrívíddarmódel sem Náttúruhamfaratrygging bindur miklar vonir við að geti gefið þeim haldbærar upplýsingar fyrir frekara mati á skemmdum. Einnig eru gögnin farin að nýtast öðrum stofnunum og aðilum.

Myndmælingateymi EFLU er hluti af stærri hóp sérfræðinga frá EFLU sem koma að þessu mikilvæga verkefni og vinna náið með öðrum aðilum sem eru að vinna innan hamfarasvæðisins.