Sigurvegarar Plastaþons

30.09.2019

Fréttir
A group of people standing together, holding certificate

Á myndinni eru fulltrúar sigurliðsins „Beljur í búð“ ásamt dómnefnd. Mynd: Umhverfisstofnun.

Plastaþon, hugmyndasamkeppni, til að vinna að lausnum á plastvandanum fór fram í fyrsta sinn í ár. Lára Kristín Þorvaldsdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, var í sigurliði keppninnar með hugmyndina „Beljur í búð“.

Sigurvegarar Plastaþons

Umhverfisstofnun stendur að plastlausum september árlega og í ár fór viðburðurinn Plastaþon fram í fyrsta sinn. Plastaþon var tveggja daga hugmyndasmiðja þar sem fjölbreyttur hópur af fólki kom saman og myndaði teymi til þess að finna lausn við þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir varðandi ofnotkun á plasti.

„Hugmyndasmiðjan var mjög skemmtilega skipulögð, þar sem byrjað var á fræðslu frá Umhverfisstofnun og fulltrúa frá Listaháskóla Íslands um það sem huga þarf að þegar við reynum að minnka ofnotkun á plasti, auka endurvinnslu á plasti og koma í veg fyrir plastmengun. Síðan fór fram hugmynda- og teymisvinna, þar sem fólk kom með sínar hugleiðingar á vandamálinu og tillögur að lausnum, en það var mjög gaman að sjá hvað fólk með ólíkan bakgrunn getur unnið vel saman við að útfæra lausnir“ sagði Lára Kristín Þorvaldsdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, og einn af þátttakendum hugmyndasmiðjunnar.

Út frá áhugasviðum mynduðust síðan sjö teymi og lögðu tillögur sínar fram í keppninni.

Fjölnota mjólkurlausn

„Beljur í búð“ er lausn sem hugsuð er til þess að minnka magn plasts sem notað er í einnota tilgangi. Hugmyndin er að setja upp vélar til viðbótar við mjólkurkæla í stórmörkuðum sem myndi svipa til ísvéla eða sjálfsafgreiðslugosvéla. Neytandinn myndi síðan sjálfur dæla vörunni í fjölnota ílát. Vélarnar gætu leyst af hólmi einnota umbúðir fyrir flestar fljótandi mjólkurvörur. „Beljurnar“ eru hugsaðar fyrir alla þá sem vilja versla með hagstæðum og umhverfisvænum hætti í stórmarkaði. „Við erum nú þegar farin að venjast því að taka með okkur fjölnota poka í búðina, af hverju ekki líka skyrílát eða mjólkurflösku.“ segir Lára Kristín.

Aðstoð við að koma hugmyndinni á framfæri

Hugmyndina að verkefninu „Beljur í búð“ eiga þær Dröfn Sveinsdóttir og Gríma Katrín Ólafsdóttir, nemendur í Tækniskólanum, Hafdís Bjarnadóttir og Móeiður Helgadóttir, listakonur, Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar og Lára Kristín Þorvaldsdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU. Þær eru allar meðvitaðir neytendur sem kljást daglega við þá áskorun að minnka notkun á einnota plasti. Hugmyndin spratt upp hjá Hafdísi þegar unglingsstrákurinn hennar hætti að borða skyr í plastlausum september og þótti henni miður að geta ekki keypt einhverjar mjólkurvörur án þess að það væri plast í umbúðunum. „Við hugsum að þessi lausn þurfi ekki bara að vera tengd mjólkurvörum, en það er eflaust gott að byrja þar, enda borðum við Íslendingar mikið af skyri og notum mikið af plastumbúðum sem því fylgir“ sagði Lára Kristín og bætir jafnframt við. „Við fengum síðan vegleg verðlaun og auðvitað er mikill heiður að lausnin okkar hafi verið valin efnilegust. En við fengum líka gjafakort í markþjálfun, í Kraumu og Flyover Iceland. Mikilvægast er þó að þessi verðlaun koma til með að hjálpa teyminu við að koma hugmyndinni áfram, þ.e. við fáum vinnuaðstöðu hjá Nýsköpunarmiðstöð og ráðgjöf hjá Umhverfisstofnun og Nýsköpunarmiðstöð við að þróa og vinna að hugmyndinni áfram. Næstu skref hjá okkur eru einmitt að útfæra hugmyndina betur og koma henni á framfæri.“ sagði Lára Kristín kampakát að lokum.

Þess má geta að annar starfsmaður EFLU, Börkur Smári Kristinsson, tók einnig þátt í Plastaþoninu og var með mjög efnilega lausn í flokkun úrgangs með gervigreind.

Við óskum sigurliðinu hjartanlega til hamingju með árangurinn og Umhverfisstofnun fyrir eftirtektarvert framtak.