EFLA hefur alla tíð lagt mikla áherslu umhverfismál og sjálfbærni í verkefnavinnu og eigin rekstri. Sylgja Dögg og Helga Jóhanna hjá EFLU tóku þátt í rafrænum fræðslufundi og ræddu sjálfbærni í byggingarverkefnum.
IÐAN fræðslusetur og samtökin Grænni byggð standa að fræðslunni sem felst í gerð þáttaraðar um sjálfbærari byggingariðnað. Markmið þeirra er að hvetja félagsmenn, og aðra, til að hugsa meira um sjálfbærni, hvetja til breyttra vinnuferla svo hægt sé að ná betri árangri í þessum málum.
Vistvottunarferli endurgerðrar byggingar
Það skiptir miklu máli að okkur líði vel í byggingum því þar eyðum við 90% af öllum okkar tíma og er hugtakið félagsleg sjálfbærni gjarnan notað í því samhengi. Í þættinum sagði Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri samfélagssviðs EFLU, frá byggingunni að Lynghálsi 4 sem EFLA starfar í sem var endurgerð og tekin í notkun fyrir um tveimur árum. „Við þær framkvæmdir var lögð mikil áhersla á sjálfbærni og ákveðið, í samráði við eiganda byggingarinnar Eykt, að vistvotta bygginguna. Um þessar mundir er byggingin í BREEAM vistvottunarferli sem felur í sér vottun á 9 áhersluatriðum. Á Lynghálsi var sérstök áhersla lögð á góða hljóðvist og loftgæði sem kallar á miklar gæðakröfur í efnisvali.“ sagði Helga í þættinum.
Umhverfismál og áhrif á heilsu
Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, sérfræðingur á byggingarsviði EFLU, hefur síðustu 15 ár starfað við að bæta innivist í byggingum þar sem hugað er að því hvernig fólki líður innandyra. „Þegar við hugsum um umhverfismál þá erum við í raun líka að hugsa um heilsu, því öll þau fótspor sem við setjum á umhverfið skipta máli hvað heilsu okkar varðar. Þannig að með því að huga að umhverfismálum erum við í leiðinni að vernda náttúruna og okkur sjálf og því verðum við að átta okkur á því að byggja betur, huga að umhverfinu – fyrir okkar heilsu.“ segir Sylgja Dögg í þættinum.
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni og fræðast meira um innivist, sjálfbærni, vistvottun og umhverfismál, en ásamt Helgu og Sylgju, tók Ríkharður Kristjánsson þátt í þættinum.