Sjálfbær þróun í fiskeldi rædd á Arctic Circle

18.10.2018

Fréttir
Arctic Circle Logo

Alþjóðleg ráðstefna um Norðurslóðir, Arctic Circle, fer fram í Hörpu dagana 19.-21. október. EFLA hefur tekið þátt í ráðstefnunni frá upphafi og stendur fyrir málstofu þar föstudaginn 19. október, undir formerkjum sjálfbærrar þróunar í fiskeldi á Norðurslóðum.

Arctic Circle

Vonast er til að um kærkomið innlegg verði að ræða inn í líflegar umræður um stöðu fiskeldis á Íslandi sem og víðar. Fiskeldi hefur vaxið gífurlega hratt undanfarin ár þar sem iðnaðurinn framleiðir dýraprótein á hagkvæman máta. Hins vegar hefur þróun greinarinnar staðið frammi fyrir erfiðleikum bæði frá sjónarhóli fyrirtækja sem kalla eftir skýrari reglum til að fara eftir og andstæðinga sem biðja um meiri eftirfylgni, strangari reglur eða jafnvel bann við fiskeldi í sjó. Þetta gerir það að verkum að umræðan einkennist oftar en ekki af miklum öfgum.

Fjögur erindi á málstofunni

Frá Háskólanum á Hólum verður flutt erindi um stöðu fiskeldis almennt og möguleika þess til framtíðar. Einnig verður flutt erindi af fulltrúa BioVio Technologies AS frá Noregi um afar spennandi verkefni um nýja gerð lokaðra kvía og kerfi til uppsetningar á landi sem fyrirtækið hefur unnið að í samvinnu við norsk tæknifyrirtæki. Hafsteinn Hafsteinsson og Stefán Þór Kristinsson frá EFLU koma til með að ræða um stöðu umhverfismála og sjálfbærni innan greinarinnar. Einnig verður fjallað um nýjung, þ.e.a.s. fiskeldis- og orkuiðngarða fyrir norðlægar slóðir og hvernig slíkir iðngarðar geti aðstoðað við að flýta fyrir orkuskiptum á landi og gera mögulegt að flytja út strandaða hreina raforku í formi efnaorku til vaxandi markaða í framtíðinni.

Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar má finna á vef Arctic Circle.

Headshot of a man

Hafsteinn Hafsteinsson, sviðsstjóri þróunar hjá EFLU, heldur erindi á málstofunni.

Headshot of a man

Stefán Þór Kristinsson, efnaverkfræðingur hjá EFLU, flytur erindi.