Sjálfbærni rædd á strandbúnaðarráðstefnu

29.03.2019

Fréttir
A man making hand gesture

Börkur Smári frá EFLU hélt erindi um sjálfbærni í fiskeldi.

Árleg ráðstefna um strandbúnað fór fram í síðustu viku og var EFLA með kynningarbás á svæðinu ásamt því sem fulltrúi okkar hélt erindi. Sjálfbærni og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru þau málefni sem EFLA lagði áherslu á.

Ráðstefnan Strandbúnaður 2019 var haldin 21-22 mars á Grand Hótel í Reykjavík og var þátttaka með besta móti eða um 350 manns. Viðburðurinn er haldinn árlega og er stærsti vettvangur þeirra sem starfa á Íslandi í fiskeldi og öðrum strandbúnaði eins og ræktun kræklinga og þörunga. Markmið ráðstefnunnar er m.a. að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um strandbúnað og styðja við þróun greinarinnar.

Heimsmarkmið SÞ og sjálfbærni í fiskeldi

EFLA var með kynningarbás á staðnum og nýtti vettvanginn til að benda á Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna um sjálfbæra þróun sem auðvelt er að stefna að með því að vinna vel að þessari iðngrein. Að auki flutti fulltrúi EFLU, Börkur Smári Kristinsson umhverfisverkfræðingur, erindi sem nefndist „Sjálfbærni í fiskeldi: Tækifæri og áskoranir í úrgangsmálum“. Þar kom m.a. fram að eldisfiskur er að verða sífellt mikilvægari hluti fæðuframboðs í heiminum og með aukinni notkun náttúrulegra auðlinda við matvælaframleiðslu munu kröfur um mengunarvarnir og endurnýtingu úrgangs verða meiri. Samhliða þeirri þróun verða tækifæri á aukinni verðmætasköpun mikilvægari. Fjallaði Börkur um hvernig fiskeldi á Íslandi sé í lykilstöðu til að grípa þessi tækifæri og nota þau til að mæta kröfum um aukna sjálfbærni í rekstri og ná með því betri sátt um greinina.