Skilvirk þurrkun á timbri

26.05.2023

Fréttir
A vast landscape featuring grassy field and dense tree line

EFLA hlaut styrk frá Loftslagssjóði fyrir verkefnið Þurrkun á timbri með jarðvarma. Verkefnið var unnið með hópi aðila frá Skógræktinni, Fjölinni timburvinnslu ehf., Límtré-Vírneti og Trétækniráðgjöf slf.

large industrial container filled with multiple layers of wooden pallet

Skilvirk þurrkun á timbri

Markmið verkefnisins var að skoða hvernig nýta megi jarðvarma til þurrkunar á timbri og kanna loftslagsávinninginn samanborið við innflutning á erlendu timbri. Enn fremur var skoðað hvar á landinu fýsilegt er að nýta jarðvarma til þurrkunar timburs.

Verkefnið var nýlega kynnt á Fagráðstefnu skógræktar 2023 af Trausta Jóhannssyni, skógverði Suðurlandi, sem vann að verkefninu ásamt EFLU. Hægt er að horfa á upptöku af erindinu á vef Skógræktarinnar hér.

Framleiðsla afurða úr íslenskum skógum eykst á hverju ári og mun stóraukast á næstu áratugum. Mikilvægur þáttur í hagkvæmri úrvinnslu skógarafurða er skilvirk þurrkun, sem skilar fleiri nýtingarmöguleikum og betri vöru. Niðurstöður verkefnisins leiddu í ljós að til þess að þurrka timbur með jarðvarma er hentugast að nota hefðbundinn þurrkofn. Til eru útfærslur af ofninum sem geta endurnýtt varma með loftvarmaskiptum en við það gæti náðst allt að 25% varmaorkusparnaður.

A diagram of a ventilation system

Loftvarmaskiptir í þurrkofni

Betri nýting auðlinda

Útreikningar verkefnisins sýna að áætluð vatnsþörf til að þurrka 1.000 m3 af greni niður í 16% raka er um 12.700 m3af 95 °C heitu vatni, sem samsvarar árlegri notkun 14 meðaleinbýlishúsa á Íslandi. Þegar vatnið kemur úr þurrkofninum er það um 80 °C og því enn nógu heitt til að nota til húshitunar. Þessi nálgun býður upp á betri nýtingu auðlinda þar sem stendur til að nýta umframframleiðslu jarðvarma frá jarðhitaborholum til að hita ofninn.

Niðurstöður verkefnisins sýna að kolefnisspor við framleiðslu íslensks timburs með jarðvarma er um 28 kg CO2-íg/m3 borðviðar og er meginhluti losunarinnar við skógrækt. Áætla má að kolefnisspor af framleiðslu íslensks borðviðar sé sambærilegt og kolefnisspor borðviðar sem framleitt er í nágrannalöndunum. Sé viðurinn notaður á Íslandi yrði þar að auki komist hjá losun sem fylgir flutningi á timbri til Íslands.

Staðarval þurrkofna

Við staðarval þarf að horfa til þess að til staðar sé jarðhiti, rafmagn, skógur og flutningsinnviðir. Æskilegt er að sögunarmyllan sé á sama stað og þurrkunarbúnaður, s.s. nálægt borholum til þess að ráðast í minni innviðauppbyggingu. Helstu markaðssvæði landsins eru á Suðvesturlandi og því telja höfundar að hagkvæmast væri að staðsetja vinnslu t.d. í Ölfusi eða í Hrunamannahreppi. Margir stærstu skógar landsins eru staðsettir á Suðurlandi, t.d. Haukadalsskógur, Snæfoksstaðir í Grímsnesi og í Þjórsárdal. Jafnframt eru stórir skógar á Vesturlandi og mætti samnýta sögunarmyllu fyrir þessa landshluta.

Map of Iceland with few red and green dots

Gróft kort af staðsetningum skóga á Íslandi þar sem búast má við hvað mestum viðarafurðum á næstu árum (grænir punktar) og staðsetningum heitavatnsborhola (rauðir punktar).

Hámörkun á virði skógarafurða

Hægt er að hámarka virði skógarafurða með því að selja sag eða kurl í stað þess að brenna það, líkt og flestar aðrar þjóðir gera til að framleiða varmaorku. Forskot íslenskra viðarafurða umfram erlendra virðast ekki síst felast í aukinni verðmætasköpun samhliða betri nýtingu auðlinda. Mikill markaður er að myndast fyrir sagi og kurli, en hægt er að þurrka hvoru tveggja og flytja út sem orkugjafa (biofuel) eða nýta til upphitunar á köldum svæðum á Íslandi.

Nánari upplýsingar um verkefnið veita þau Alexandra Kjeld | alexandra.kjeld@efla.is og Hilmar Þór Símonarson | hilmar.thor.simonarson@efla.is