Smíða formúlubíl fyrir alþjóðlega keppni

10.12.2024

Fréttir
Hópur fólks.

RU Racing, kappaksturslið Háskólans í Reykjavík, fékk styrk úr Samfélagssjóði EFLU fyrir stuttu. Liðið tekur þátt í Formula Student, þverfaglegri verk- og viðskiptafræðikeppni á milli evrópskra tækniháskóla.

Þverfaglegt verkefni sem eflir hæfni og samstarf

„Þetta er frábær reynsla fyrir okkur sem nemendur. Við fáum að prófa að leysa raunverulegar áskoranir og nýta þekkingu okkar á skapandi hátt,“ segir Skarphéðinn D. Stefánsson, liðsfélagi í RU Racing.

Liðið hannar og smíðar formúlubíl frá grunni og keppir í greinum eins og verkfræðilegri hönnun, viðskiptamódeli, kostnaðargreiningu og framleiðslu. Með þátttöku í Formula Student eykst samstarf við íslensk fyrirtæki og nemendur öðlast reynslu sem nýtist þeim í atvinnulífinu.

Fjöldi kappakstursbíla og aðstoðarfólk í baksýn.

Fimm bílar og jafnmargar keppnir

RU Racing hóf starfsemi sína haustið 2015 og keppti fyrst sumarið 2016 í Bretlandi. Síðan þá hefur liðið smíðað fimm bíla og tekið þátt í jafnmörgum keppnum. Liðið er skipað 20-30 meðlimum á hverjum tíma sem leggja mismikinn tíma í verkefnið.

„Það eru þrjú fagsvið sem koma að þessu verkefni: tækni-, verk- og viðskiptafræði. Stærsti hluti liðsins kemur þó úr tækni- og verkfræði og sameinar fjölbreytta sérfræðiþekkingu,“ útskýrir Skarphéðinn.

Fimm deildir með skýrt hlutverk

Til að tryggja góðan framgang verkefnisins er RU Racing skipt upp í fimm deildir, sem hver og ein ber ábyrgð á ákveðnum þáttum bílsins:

  • Grind og loftaflfræði: Sér um hönnun grindar og loftaflfræðilega þætti bílsins.
  • Rafkerfi: Sér um rafkerfi og rafhlöður.
  • Vél og drifbúnaður: Ber ábyrgð á vél og drifbúnaði.
  • Fjöðrun: Vinnur að fjöðrunarkerfi bílsins.
  • Fjármál og markaðsmál: Sér um fjármál, styrki og markaðsmál.

„Hver deild vinnur sjálfstætt að sínum markmiðum og heldur vikuleg vinnukvöld. Það er mikilvægt að allir viti sitt hlutverk og hvernig þeirra vinna tengist heildarverkefninu,“ segir Skarphéðinn.

Hópur ýtir kappasktursbíl á undan sér.

Stefnt á Mið-Evrópu í sumar

Núverandi bíll liðsins er enn í hönnunar- og smíðafasa, en gert er ráð fyrir að hann verði tilbúinn í fyrsta lagi í lok maí og í síðasta lagi í lok júní. Stefnt er á þátttöku í keppni í Tékklandi eða Rúmeníu á milli mánaðamóta júlí og ágúst.

„Við stefnum alltaf að því að bæta okkur frá fyrri árum. Þó að við bíðum eftir staðfestingu á dagsetningum þá er það algjört forgangsatriði að bíllinn sé fullkomlega tilbúinn áður en hann fer í keppni,“ segir Skarphéðinn.

Með metnaði, fagmennsku og þrautseigju hefur RU Racing náð að skapa sterkan grunn og sérfræðikunnáttu sem mun án efa færa liðið langt í framtíðinni.