Spá um afköst hafna

12.07.2022

Blogg
Ljósmynd af Ísafjarðarhöfn

Mynd 1 Ísafjarðarhöfn. Ljósmynd: Majid Eskafi.

Spálíkön fyrir afkastagetu hafna gegna mikilvægu hlutverki í skipulagningu og stjórnun hafnarinnviða. Ákvarðanir um nýjar fjárfestingar sem miða að því að auka afköst ættu að byggja á aukinni eftirspurn. Skert afkastageta getur haft áhrif á afkomu og þar af leiðandi samkeppnisstöðu hafnarinnar vegna þrengsla og lengingar á biðtíma. Á hinn bóginn leiðir umframgeta (e. overcapacity) til minni hagkvæmni í hafnarframkvæmdum.

Rannsóknarverkefni

Í þessu rannsóknarverkefni er Bayesískri líkindafræði beitt til að spá fyrir um árleg afköst Ísafjarðarhafnar fyrir gámaflutninga og flutninga utan gáma frá 2020 til 2025. Höfnin er staðsett við meginleið strandflutninga umhverfis landið.

Í rannsóknarverkefninu var þróað líkan sem getur bæði fundið líklegasta spágildið úr þýðinu (punktspá), en getur einnig ákvarðað líklegasta bil fyrir afköst með öryggisbili. Líkanið getur því veitt gagnlegar upplýsingar fyrir ákvarðanatökur hjá hagsmunaaðilum, sem gerir þeim kleift að mæta breyttum og óvissum framtíðarkröfum. Hægt er að uppfæra spálíkanið þegar ný gögn koma í ljós.

Þar sem efnahagsþróun er mikilvægur áhrifaþáttur fyrir sjóflutninga er samhengi á milli afkastagetu hafna og þjóðhagsstærða.

Því eru áhrifaþjóðhagsstærðir sem nota ætti í spálíkaninu auðkenndar með gagnkvæmri upplýsingagreiningu (sjá Greining á farmflæði). Líkanið auðkennir línuleg og ólínuleg tengsl milli þjóðhagsstærða og hafnarafkasta og spáir hafnarafköstum út frá fyrirliggjandi spá um þjóðhagsstærðir.

Í þessari rannsókn voru sex þjóðhagsstærðir notaðar til greiningar. Þetta eru landsframleiðsla, meðalársvísitala neysluverðs, heimsframleiðsla, magn innlendra útflutningsviðskipta, magn innflutningsviðskipta og fólksfjöldi. Um Ísafjarðarhöfn fara tvær farmgerðir: gámaflutningar og farmar utan gáma. Í rannsókninni var farmur sem fluttur er í gámi magntekinn miðað við jafngildiseiningu tuttugu feta gáms. Farmur sem ekki er í gámum er einna helst eldsneytisolía, vegagerðar- og viðhaldsefni, áburður og fiskafóður, sjávarafurðir og hráefni til iðnaðar, og annar smærri almennur farmur. Þessi farmur er talinn í tonnum.

Mynd 2 sýnir sögulega þróun og spáð hafnarafköst með viðeigandi öryggisbili. Eins og sjá má hafa afköst í gámum farið vaxandi síðan 1990. Frá efnahagshruninu í heiminum 2008–2009 og fram til ársins 2012 minnkaði vöxturinn. Afköst án gáma sýnir almennt minnkandi þróun frá 1990 til 2012. Árið 2013 jukust afköst án gáma og gáma verulega. Ein af ástæðunum fyrir þessari aukningu er mikill vöxtur í fiskeldi, einkum í laxaiðnaði á Vestfjörðum. Hið ört vaxandi fiskeldi bætir viðskiptaumhverfi og vöxt tengdrar starfsemi.

Eins og sjá má á mynd 2 sýnir gámaflutningur stöðugan vöxt á tímabilinu 2020–2025, en afköst án gáma drógust hratt saman á tímabilinu. Þessi vöxtur í afköstum gáma er í takt við aukninguna á gámamörkuðum heimsins. Gámafarmur er orðinn helsta flutningsformið í örum vexti alþjóðaviðskipta. Enn fremur er stöðug þörf fyrir áreiðanlegan og skjótan útflutning á tímaviðkvæmum farmi í frystigámum.

Niðurstöðurnar veita verðmætar og grundvallarupplýsingar fyrir upplýsta ákvarðanatöku í skipulagningu afkastagetu, fyrir rekstraráætlun og stjórnun út frá framtíðareftirspurn. Þannig hjálpa niðurstöðurnar stjórnendum að viðhalda samkeppnisstöðu hafnarinnar og vexti hennar í markaðshlutdeild.

Í þessari grein eru kynntar niðurstöður hluta rannsóknar á skipulagsgerð hafna sem var studd af Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands, Ísafjarðarbæ, Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar og Hafnasambandi Íslands. Rannsóknin var hluti af doktorsrannsóknum höfundar.

Höfundur er verkfræðingur með doktorspróf í umhverfisverkfræði frá Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá EFLU.

Söguleg og spáð gámaskipt (vinstri) og ógámaskipt (hægri) hafnarafköst (PT) og öryggisbil (CI)

Mynd 2 Söguleg og spáð gámaskipt (vinstri) og ógámaskipt (hægri) hafnarafköst (PT) og öryggisbil (CI)

Nánir upplýsingar

  1. Eskafi, M., M. Kowsari, A. Dastgheib, G. F. Ulfarsson, G. Stefansson, P. Taneja, and R. I. Thorarinsdottir. 2021. “A Model for Port Throughput Forecasting Using Bayesian Estimation”, Maritime Economics and Logistics, 23 (2), pp. 348-368. https://doi.org/10.1057/s41278-021-00190-x

Viltu vita meira?

Velkomið að senda okkur línu ef þú vilt fræðast meira um þjónustu EFLU varðandi hafnarskipulag.