Staða og framtíðarhorfur innviða

09.10.2017

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga hafa gefið út skýrslu sem fjallar um ástand innviða á Íslandi. Innviðir eru skilgreindir sem flugvellir, fráveitur, hitaveitur, vatnsveitur, vegir, hafnir, úrgangsmál, orkuvinnsla, orkuflutningar og fasteignir ríkis og sveitarfélaga.

Staða og framtíðarhorfur innviða

Skýrslan varpar ljósi á stöðu ofangreindra innviða, ástand þeirra og framtíðarhorfur ásamt því sem mat er lagt á uppsafnaða viðhaldsþörf. Þá eru settar fram ráðleggingar varðandi þætti sem þyrfti að lagfæra og málaflokknum gefin einkunn varðandi ástand hans.

Sérfræðingar EFLU komu að gerð skýrslunnar varðandi fráveitur, orkuflutninga, og úrgangsmál.

Fráveitur í mjög lélegu ástandi

Í umfjöllun um stöðu fráveitumála kom fram að mikil þörf væri á endurbótum á lagnakerfum fráveitna. Þessi málaflokkur, ásamt vegakerfinu, fékk lægstu einkunn eða 2, sem er skilgreint sem mjög lélegt ástand. Fráveituinnviði þarf að lagfæra t.d. með uppbyggingu á skólphreinsistöðvum og auknu viðhaldi á eldri lagnakerfum.

Orkuflutningar og dreifikerfi raforku

Greinargerð um orkuflutninga fjallaði m.a. um að byggja þarf upp betra dreifikerfi í dreifbýli en ástand þess í þéttbýli var almennt talið gott. Verulegar takmarkanir eru í flutningskerfi raforku og á vissum stöðum getur það ekki annað auknum flutningi og því ekki hægt að verða við óskum notenda um aukna notkun. Til að byggja upp flutnings- og dreifikerfi raforku með farsælum hætti þyrfti að afhenda 3ja fasa rafmagn alls staðar og tryggja uppbyggingu meginflutningskerfisins á landsvísu.

Úrgangsmál þarfnast skýrari stefnumörkun

Varðandi stöðu úrgangsmála kom fram að ein mikilvægasta aðgerðin í málaflokknum væri markviss innleiðing úrgangsforvarna ásamt því að leggja áframhaldandi áherslu á endurnotkun og endurvinnslu. Þá þyrfti að draga úr urðun eins og hægt væri samhliða því að skýr stefnumótun um sorpbrennslu eða sambærilega lausn fyrir sóttmengaðan úrgang og spilliefni væri til staðar.

Opinn fundur og umræða

Skýrslan var kynnt á opnum fundi 5. október síðastliðinn og fluttu fyrirlesarar erindi um stöðu innviða úr skýrslunni. Helga Jóhanna Bjarnadóttir, verkfræðingur og sviðsstjóri umhverfissviðs EFLU fjallaði um stöðu fráveitna og úrgangsmála.

Hægt er að horfa á upptöku af fundinum og skoða glærur á vef Samtaka Iðnaðarins.

Innviðir á Íslandi - skýrsla