Staða salernismála á ferðamannastöðum - skýrsla þrjú

28.12.2016

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Komin er út þriðja áfangaskýrslan sem EFLA vann fyrir Stjórnstöð ferðamála um uppbyggingu aðstöðu fyrir ferðamenn á Íslandi. Í skýrslunum þremur hefur verið gerð úttekt á aðgengi ferðamanna og kostnaði við uppbyggingu og rekstur salernisaðstöðu við þjóðvegi landsins og ferðamannastaði.

Staða salernismála á ferðamannastöðum - skýrsla þrjú

Áfangaskýrslan sem nú hefur verið birt, og er jafnframt sú síðasta í verkefninu, fjallar um rekstrarkostnað salernisaðstöðu meðfram þjóðvegi 1 og á ferðamannastöðum. Ljóst er að rekstur á salernisaðstöðu er kostnaðarsamur og hingað til hafa fáir viljað bjóða slíka þjónustu nema af illri nauðsyn og þá helst staðarhaldarar við ferðamannastaði. Slík uppbygging hefur alfarið verið á ábyrgð staðarhaldara, hvort sem það eru einkaaðilar, sveitarfélög eða opinberar stofnanir. Þannig er þeim í sjálfsvald sett hvort þeir bjóði upp á salernisaðstöðu eða ekki, þar sem þeim ber ekki skylda til þess. Einnig verða staðarhaldarar sjálfir að standa straum af rekstri salernisaðstöðu ásamt kostnaði við uppbyggingu aðstöðunnar.

Samkvæmt niðurstöðum EFLU hefur verið áætlað að rekstrarkostnaður á einu salerni við ferðamannastaði sé í kringum 40-50 þús. krónur á mánuði. Kostnaðurinn getur þó verið lægri á fjölmennari stöðum sem njóta stærðarhagkvæmni og að sama skapi hærri á fámennari ferðamannastöðum.

Mikil þörf á skjótum úrbótum

Úttektir EFLU sýna glöggt að mikil þörf er á skjótum úrbótum hvað varðar aðgengi ferðamanna að almenningssalernum við þjóðvegi landsins og við ferðamannastaði. Ljóst er að skipulagsmál og eignarhald skipta miklu máli varðandi hversu hratt er hægt að grípa til aðgerða.

Ný stefnumótandi landsáætlun, lög 20/2016, var samþykkt vorið 2016 og er m.a. ætlað að taka á salernisvandanum og auka aðkomu hins opinbera að uppbyggingu grunnþjónustu á ferðamannastöðum. Munu niðurstöður úr fyrrnefndum skýrslum EFLU gagnast við gerð landsáætlunar en í skýrslunum er að finna upplýsingar um:

- Ástand salernismála á ferðamannastöðum um allt land

- Salernisþörf og forgangsröðun á þeim stöðum þar sem þörfin er mest

- Kostnað við uppbyggingu salernisaðstöðu

- Rekstrarkostnað salernisaðstöðu

Sjá nánar skýrsluna ásamt samantekt á niðurstöðum úr öllum þremur skýrslum:

Uppbygging aðstöðu fyrir ferðamenn - Rekstrarform

Samantekt á niðurstöðum

Tengdar fréttir:

Skýrsla tvö

Skýrsla eitt