Stærðfræðibúðir sem efla sjálfstraust og fjölbreytileika

15.07.2025

Fréttir
Stelpur og kennari á stærðfræðinámskeiði.

Stelpur diffra eru sumarnámsbúðir í stærðfræði ætlaðar stelpum og stálpum á framhaldsskólaaldri með það að markmiði að efla áhuga þeirra á stærðfræði og tengdum greinum. Verkefnið fékk styrk úr Samfélagssjóði EFLU fyrir stuttu.

Aukinn innblástur og skýrari sýn

Nanna Kristjánsdóttir, stofnandi, segir að verkefnið vinni gegn kynjahalla sem enn er ríkjandi í STEM-greinum og hefur þegar skilað árangri. Þátttakendur hafa m.a. valið sér nám í stærðfræði, eðlisfræði og verkfræði. Í búðunum fá þátttakendur að kynnast ólíkum sviðum stærðfræðinnar í gegnum skemmtileg verkefni og fyrirmyndir í formi kvenna sem starfa innan STEM-greina. Kannanir sýna að þessi tenging hefur djúpstæð áhrif þar sem þátttakendur fá aukinn innblástur og skýrari sýn á framtíðarmöguleika sína.

Verkefnið hófst sem hugmynd í lokaverkefni í MH árið 2020 og var haldið í fyrsta sinn sumarið 2021. Frá upphafi hefur Háskóli Íslands verið öflugur bakhjarl og styrktaraðilar á borð við Mennta- og dómsmálaráðuneytið, Verkfræðingafélag Íslands og nú EFLA, gert verkefnið að veruleika.

Efla fjölbreytileika

Verkefnið hefur vaxið hratt. Í fyrra var námskeiðið Kennarar diffra haldið í fyrsta sinn fyrir stærðfræðikennara og í apríl 2024 voru Stelpur diffra haldnar á Akureyri með frábærum árangri. Nýtt námskeið, Stelpur í STEM, er einnig í undirbúningi.

Framtíðin er björt og er markmiðið að halda áfram að efla fjölbreytileika innan stærðfræðigreina og skapa vettvang þar sem stelpur og stálp geta blómstrað. Líkt og Stelpur rokka gera þátttakendur að pönkurum innan tónlistar, þá gera Stelpur diffra þau að pönkurum innan stærðfræðinnar.

Veittir eru styrkir úr Samfélagssjóði EFLU tvisvar á ári. Hægt er að fá frekari upplýsingar og sækja um styrki á vefsíðu sjóðsins.