Listasafn Einars Jónssonar og EFLA, í samstarfi við List fyrir alla, hljóta styrk frá Barnamenningarsjóði til myndmælinga og framsetningar á stafrænum tvíburum: verka Einars Jónssonar myndhöggvara.
Stafrænar styttur
Markmið verkefnisins, sem kallast „Stafrænar styttur: Myndmæling á listaverkum Einars Jónssonar“, er að setja fram þrívíð módel af höggmyndum Einars og birta á vefnum í formi stafrænna viðburða og fjarfræðslu.
Listasafn Einars Jónssonar mun sjá um kennslufræðilega nálgun stafrænna viðburða/fjarfræðslu í samstarfi við EFLU og List fyrir alla. EFLA mun sjá um myndmælingu og framsetningu þrívíðra módela. List fyrir alla mun veita verkefninu faglega umgjörð á vefsíðu verkefnisins.
Listaverk aðgengileg öllum
Einar Jónsson (1874–1954) lagði grunn að höggmyndalist hér á landi og var einn af frumkvöðlum íslenskrar myndlistar. Listasafn Einars Jónssonar er fyrsta listasafn landsins sem var opnað almenningi í eigin húsnæði. Verkefnið gerir safngestum á öllum aldri kleift að nýta sér spennandi tækni til að kynnast betur listaverkum Einars og er þar með í fararbroddi þegar kemur að því að nýta stafræna miðlun til að gera safnkostinn aðgengilegan öllum.
Í fremstu röð á sviði myndmælinga
Starfsfólk EFLU býr yfir mikilli reynslu og þekkingu í tæknilegum lausnum og framsetningu efnis í þrívíddargrafík og sýndarveruleika ásamt því að sinna fjölbreyttum myndmælingum, allt frá stórum landsvæðum niður í smásteina.
Barnamenningarsjóð ætlað að jafna aðgengi að listviðburðum
List fyrir alla mótar, velur og miðlar listviðburðum til barna og ungmenna um land allt. Eitt af markmiðum Barnamenningarsjóðs er einmitt að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag og passar því verkefnið vel að því markmiði.